„Okkur hefur liðið ákaflega vel á Íslandi en þegar ég var búinn að vera hér í ár, í nóvember síðastliðnum, tók ég ákvörðun um að snúa aftur heim, ganga í herinn og freista þess þannig að leggja mitt af mörkum.“
Þetta segir Úkraínumaðurinn Volodymyr Mazur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
„Ég þarf að vera kominn til Zjytómýr [heimaborg hans] í síðasta lagi 7. apríl.“
Við erum ekki að tala um herkvaðningu. Þetta er þitt val?
„Já, þetta er mitt val. Það er alltaf erfitt þegar stríð dregst á langinn og er frá líður verður sífellt erfiðara að manna hersveitirnar. Ég er ungur, 35 ára, og við góða heilsu og mér rennur hreinlega blóðið til skyldunnar. Mér þykir vænt um landið mitt og er stoltur af því að vera Úkraínumaður. Og nú þarf Úkraína á mér að halda. Ég verð að vera ærlegur við sjálfan mig. Gerði ég allt sem ég gat gert eða horfði ég bara á?“
Hvað finnst konunni þinni um þessa ákvörðun?
„Hún er hrædd en skilur og styður þessa ákvörðun mína. Við veljum ekki tímana sem við fæðumst og lifum á.“
Eiginkona hans og tvær ungar dætur þeirra fara með honum heim. „Ætluðum við að dveljast áfram á Íslandi, þá yrðum við að þurrka út allt okkar minni. Gleyma öllu. Það verður gott að koma heim. Pabbi dó fyrir þremur árum og mamma er ein í Zjytómýr. Eins tengdamóðir mín. Tengdafaðir minn er í hernum. Þetta er okkar nánasta fólk.“
Fjölskyldan snýr heim í gömlu íbúðina sína og Volodymyr viðurkennir að því fylgi ákveðin áhætta; sérstaklega stafi hætta af eldflauga- og drónaárásum.
Hvernig tilfinning er það að vera á leiðinni í stríð?
„Tilfinningin er þrískipt. Í fyrsta lagi reiði. Í öðru lagi heiður. Og í þriðja lagi ótti.“
Volodymyr hlaut grunnþjálfun í hernum meðan hann var í háskóla sem var valkvætt, þannig að hann kemur ekki alveg kaldur að málum. Fyrstu mánuðirnir fara þó í markvissa þjálfun áður en hann fær að vita hvert hlutverk hans verður í stríðinu. Sjálfur hefur hann ekkert um það að segja, liðþjálfarnir taka þá ákvörðun að undangengnu mati á getu og hæfileikum hvers og eins.
„Á þessum tímapunkti hef ég ekki hugmynd um hvað bíður mín.“
Hvað verður þú lengi í hernum?
„Í þrjú ár – ef ég lifi.“
Tvö ár eru liðin um þessar mundir frá því Rússar réðust inn í Úkraínu. Þessum tímamótum hafa verið gerð góð skil í Morgunblaðinu síðustu daga og svo verður áfram næstu daga.
Nánar er rætt við Volodymyr í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.