Var hræðilegt að lenda í þessu

Evelyn Miosotis Rodriguez með John Miguel og dóttur.
Evelyn Miosotis Rodriguez með John Miguel og dóttur. Mynd/Aðsend

Evelyn Miosotis Rodriguez, móðir 11 ára gamals fatlaðs drengs, hefur ekki góða sögu að segja um Pant, akstursþjónustu fatlaðs fólks, en sonur hennar skilaði sér ekki heim úr Klettaskóla og fannst við Víkingsheimilið í Fossvogi um hálftíma eftir að hann fór úr bílnum.

„Það var hræðilegt að lenda í þessu. Það var bílstjóri hjá Hreyfli á vegum Pant sem sótti John Miguel minn og átti að keyra hann heim til okkar í Safamýri 27. En strákurinn skilaði sér ekki og þegar klukkan var að ganga þrjú og barnið ekki komið þá hringdi ég í Pant. Þar svaraði enginn til að byrja með en þegar ég náði sambandi var ég beðin að hinkra og mér svo sagt að bílstjórinn hafi skilað dregnum klukkan 14.31 við Safamýri 28,“ segir Evelyn við mbl.is.

Fann símanúmerið í skólatöskunni

Hún segist í framhaldinu hafa hringt í lögregluna og síðan í skólann. Á sama tíma segist hún hafa fengið símhringingu frá númeri sem hún kannaðist ekki við. En það hafi verið starfsmaður úr Víkingsheimilinu sem hafi tjáð sér að John Miguel væri þar.

„Starfsmaðurinn fann símanúmerið mitt í skólatöskunni hans. Ég fór strax á staðinn og John var greinilega mjög hræddur. Hann var með buxurnar á hælunum og var bæði búinn að pissa og kúka á sig. Hann var skítugur og mjög hræddur en John talar ekki og er með litningagalla, flogaveiki og einhverfu,“ segir Evelyn.

John Miguel er 11 ára gamall.
John Miguel er 11 ára gamall. Mynd/Aðsend

Hún segist hafa labbað með son sin heim frá Víkingsheimilinu og hann hafi verið grátandi og skelkaður.

Vildi ekkert borða

„Ég baðaði hann, klæddi hann í hrein föt og reyndi að róa drenginn minn. Hann vildi ekkert borða þennan dag en ég fékk hann til að drekka einn bolla af kakói. Sem betur fer hefur hann það ágætt í dag,“ segir Evelyn.

Hún segist vera afar óánægð með þjónustu Pant enda sé þetta atvik ekki það fyrsta. Í maí 2022 segir Evelyn að John hafi ekki verið skilað til síns heima og að nágranni hafi fundið hann úti og komið með hann heim.

John var búinn að pissa og kúka á sig þegar …
John var búinn að pissa og kúka á sig þegar móðir hans sótti hann í Víkingsheimilið. Mynd/Aðsend

„Ég veit ekki hvort þetta hafi verið sami bílstjórinn,“ segir Evelyn en hún segir að Sturla Halldórsson, framkvæmdastjóri Pant, hafi haft samband á fimmtudaginn þegar John skilaði sér ekki heim þar sem hann hafi beðist afsökunar og  sagðist ætla að ræða við bílstjórann og Harald Axel Gunnarsson, framkvæmdastjóra Hreyfils.

Búin að afbóka allar ferðir hjá Pant

Evelyn segist vera búinn að afbóka allar ferðir hjá Pant sem hún segist hafa verið búin að bóka.

„Í gær keyrði ég og sótti hann í skólann en ég veit ekki hvað ég mun gera í framhaldinu. Pant virðist ekkert gera í þessu og það er ekki hægt að treysta á þessa þjónustu. Ég fékk loforð frá Pant að þeir ætluðu að sjá til þess að þetta myndi ekki gerast aftur en svo gerist það nákvæmlega sama. Þetta fólk sem er að keyra fatlað fólk á að taka ábyrgð á því og sýna fólki virðingu,“ segir Evelyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert