Banaslys vegna mikillar aukningar þungaflutninga

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, vill ekki meina að ástand vega hafi orðið þess valdandi að banaslysum fjölgaði mjög í umferðinni í upphafi þessa árs. Sjö einstaklingar hafa nú látist það sem af er ári, einum færri en á öllu síðastliðnu ári.

Bergþóra er gestur Spursmála þar sem þessi mál bar á góma ásamt öðrum er varða vegakerfið á Íslandi.

Flókið viðfangsefni

- Hér hafa orðið skelfileg banaslys, banaslysahrina í janúar, fólk stendur frammi fyrir þessu orðlaust. Er þetta að einhverju leyti á ábyrgð þess að við höfum ekki byggt upp kerfið nægilega vel?

„Þetta er of einföld spurning fyrir of flókið viðfangsefni.“

- Má rekja eitthvað af þessum banaslysum til þess að vegir hafa ekki verið í nógu góðu standi?

„Ég held að það sé ofsagt. Það sem við sjáum, ekki það að ég er ekki með allar upplýsingar um þessi slys, þau eru ekki búin að fara sinn feril. En það sem við sjáum er að það er mikið um að það er þyngra ökutæki sem er að fara framan á eða aftan á léttara ökutæki. Það tengist klárlega, eða myndi ég halda, að tengist verulega mikilli aukningu á umferð þungra ökutækja. Við erum að sjá það í öllum mælingum. Það er einn parturinn af þessu. En síðan er það annað sem kannski sem maður sér að þetta eru bílar sem eru að fara framan á hvorn annan. Og í einhverjum tilvikum eru slík slys, ef það væri útaf akstur vinstra megin, þú ferð yfir á ranga akrein og út af en núna er svo mikil umferð að umferðaraukningin er gríðarleg og aukningin er yfir kerfið í heild 60-100% og á sumum stöðum jafnvel nokkur hundruð prósent eins og er fyrir austan Vík.“

Jafnvel hundruða prósenta aukning

- Yfir hvaða tímabil?

„Á tímabilinu frá 2010. Við notum gjarnan það tímabil. Það er það tímabil þegar við erum byrjuð að ná okkur upp úr hruninu.“

Viðtalið við Bergþóru má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert