„Ekkert óvenjulegt á ferðinni“

Tveir skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst í Bárðarbungu …
Tveir skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst í Bárðarbungu um helgina. mbl.is/Rax

Tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst í Bárðarbungu í Vatnajökli um helgina. Á föstudagskvöldið mældist skjálfti að stærðinni 3,1 og laust fyrir klukkan 8 í morgun mældist skjálfti að stærðinni 3,2.

Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekkert óvenjulegt vera á ferðinni á þessum slóðum.

„Skjálftar af þessari stærð eru ekki óalgengir og það er bara venjuleg virkni í gangi. Frá áramótum hafa mælst sex skjálftar yfir þremur að stærð í Bárðarbungu,“ segir Bjarki við mbl.is.

Hann segir að staðan á Reykjanesskaganum sé óbreytt. Landrisið haldi áfram og það megi alveg búast við því að ef það haldi áfram með sama hraða geti dregið til tíðinda á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert