Ekki leyna börnin neinu

Andrea Björt og Ingibjörg Rún eiga saman soninn Blæ. Andrea …
Andrea Björt og Ingibjörg Rún eiga saman soninn Blæ. Andrea er að vinna að bók fyrir foreldra og börn til að skilja uppruna sinn.

Blær litli sefur vært þegar blaðamann ber að garði til að hitta aðra mömmu hans, Andreu Björt, sem nú vinnur að bók fyrir foreldra og börn. Andrea, sem vinnur á geðsviði, er iðjuþjálfi með diplómapróf í kynfræði.

Starfið segir hún bæði skemmtilegt og krefjandi. Körfubolti er mikið áhugamál og hefur Andrea þjálfað yngri flokka í átta ár, þannig að hún situr sjaldan auðum höndum. Andrea er gift flugmanninum Ingibjörgu Rún Jóhannsdóttur og saman eiga þær soninn Blæ sem nú er átta mánaða. Hann varð til með hjálp gjafasæðis í gegnum Livio Reykjavík.

Andrea er nú í fæðingarorlofi og datt í hug að nýta tímann þegar barnið svæfi til að skrifa bók sem gæti komið öllum til góða; ekki síst foreldrum sem eignast börn með einhvers konar aðstoð. Fjölmargt fólk þarf að þiggja aðstoð til að geta orðið foreldrar og telur Andrea mikilvægt að talað sé opinskátt og að börnin fái að vita hvernig þau urðu til.

Upplýsa börn með einlægni og ást

„Tilgangur bókarinnar er að aðstoða foreldra við að upplýsa börn um hvernig þau urðu til. Öll börn og allar fjölskyldur geta notað bókina, en hún er sérstaklega hugsuð fyrir fólk sem fær aðstoð frá gjafa eða frá læknum. Í bókinni er hægt að setja inn myndir bæði af foreldrum og af gjafanum þannig að hver og einn setur inn sínar myndir og sínar upplýsingar,“ segir Andrea og segir að í bókinni séu listar sem hægt er að haka við og eins línur sem skrifa má upplýsingar á.

„Það væri til dæmis hægt að haka við boxin tæknisæðing eða glasafrjóvgun,“ útskýrir Andrea.

„Eins er hægt að haka við hvaðan eggfruman kom og hvor gekk með barnið. Svo er stundum þannig að fólk fær bæði gjafaegg og gjafasæði; það eru til alls konar útfærslur og þetta getur fólk allt fyllt inn,“ segir hún.

Andrea segir mjög mikilvægt að börn viti af því ef þau eru getin með aðstoð gjafa.

„Það á ekki að leyna þau því og það er mikilvægt að byrja sem fyrst að upplýsa þau um það. Því fyrr því betra. Og ef það er ekki búið þá er alltaf hægt að upplýsa börnin, með einlægni og ást, þótt það sé best að reyna að gera það sem fyrst.“

Fundum fljótt rétta gjafann

Andrea og Ingibjörg kynntust fyrir fimm og hálfu ári og giftu sig árið 2022. Þær vissu báðar að einn daginn myndu þær vilja eignast börn. Þegar rétti tíminn var kominn pöntuðu þær tíma hjá Livio Reykjavík.

„Livio notar sæðisbanka frá Danmörku. Við fórum þar inn á síðu og fundum gjafa þar,“ segir Andrea og segir þær hafa fengið miklar upplýsingar um gjafann, meðal annars nokkrar myndir.

„Við fengum líka að lesa bréf frá honum og hlusta á hljóðupptöku af viðtali við gjafann. Svo eru þarna ýmsar upplýsingar um ætt og heilsufar, auk lýsingar á persónuleika,“ segir Andrea.

Spurð hvort það hafi verið erfitt að velja svarar hún:

„Þetta var svolítið yfirþyrmandi en á sama tíma vorum við sáttar og fundum fljótt að þetta væri gjafinn sem við vildum nota,“ segir hún.

„Ég gekk með barnið og mitt egg var notað. Þetta gekk í annarri tilraun en við fórum í tæknisæðingu. Það var alveg frábært að þetta skyldi takast og við erum ekkert smá heppnar að hafa eignast hann.“

Söfnun á Karolina Fund

Andrea segir í dag svo margar aðferðir notaðar til þess að eignast barn eða búa það til; tæknifrjóvgun, ættleiðing, staðgöngumæðrun og mismunandi útfærslur á hvaðan kynfrumur koma eða hver gengur með barnið. Því sé gott að eiga bók sem er þá í raun sérsniðin fyrir hverja fjölskyldu.

„Jafnvel ef fólk ættleiðir gæti það notað þessa bók,“ segir Andrea og segir að bókin verði þýdd á ensku og muni þá heita How Was I Made?

„Til þess að bókin geti orðið að veruleika er ég að safna á Karolina Fund. Ég set markið við 5.500 evrur, sem eru í kringum átta hundruð þúsund krónur sem myndi duga fyrir útgáfunni. Nú er ég búin að safna um 30% af upphæðinni en ég mun safna áfram til 11. mars,“ segir Andrea og bendir fólki sem vill leggja málefninu lið á karolinafund.com hér. 

Ítarlegra viðtal er við Andreu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert