Maður, sem ákærður var fyrir að hafa slegið konu í höfuðið með poka af bjórflöskum úr gleri, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.
Manninum var gefið að sök að hafa slegið konuna fyrir utan hús í Þorlákshöfn í ágúst 2021 með poka af fjórum glerflöskum í höfuðið. Konan hafi hlotið heilahristing og tvær kúlur á höfuðið. Framburður mannsins, konunnar og annarra vitna í skýrslutökum og fyrir dómi var mjög á reyki um atvik málsins.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kvaðst konan hafa verið í partíi og keypt kókaín af manninum. Sagði hún þau hafa átt í útistöðum vegna ásakana mannsins um að einhver í partíinu hefði tekið frá honum „gramm“ án þess að greiða fyrir. Þau hafi rifist og maðurinn að lokum slegið hana í höfuðið með pokanum.
Fyrir dómi kvaðst hún hins vegar ekki muna neitt eftir atvikum málsins sökum minnisleysis vegna mikillar neyslu.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og hélt því fram að hann hefði ekki veist að konunni, heldur hefði hún veist að honum umrætt sinn og hann eingöngu slengt pokanum í jörðina til að hræða hana. Þá neitaði hann því að hafa verið að dreifa fíkniefnum.
Héraðdómur taldi læknisvottorð styðja framburð konunnar hjá lögreglu en taldi það eitt og sér ekki duga til sönnunar.
Dómurinn taldi ekki unnt að byggja sakfellingu á framburði konunnar og vitna, en eitt vitnið hafði byggt lýsingar sínar á orðum konunnar. Var það ekki talið hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði framið þá líkamsárás sem honum var gefin að sök. Var hann því sýknaður í málinu.