Reir þróun ehf. hefur sent Reykjavíkurborg fyrirspurn þess efnis hvort leyfð verði uppbygging á svokölluðum lífsgæðakjarna með fjölbreytt búsetuform fyrir eldra fólk á lóðinni Skógarhlíð 16. Á lóðinni er bensín- og smurstöð byggð árið 1964 og er húsið friðað.
Fyrirspurnin var send skipulagsfulltrúa til meðferðar. Það var niðurstaða verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að gera ekki athugasemd við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina með hliðsjón af leiðbeiningum sem hann setti fram í umsögn sinni.
Fram kemur í umsögninni að lóðarhafi og Reykjavíkurborg undirrituðu samkomulag 25. júní 2021 um að unnin yrði breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina. Um er að ræða bensínstöðvarlóð þar sem hugmyndir eru um að núverandi starfsemi víki fyrir verslunar-, atvinnu-, þjónustuhúsnæði og íbúðum. Lagt er upp með að í breytingunni á deiliskipulaginu verði valkvætt af hálfu lóðarhafa hvort á efri hæðum verði íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði á jarðhæð.
Eins og fram hefur komið hér í Morgunblaðinu gerði Reykjavíkurborg samkomulag við olíufélögin um lokun bensínstöðva víða um borgina og uppbyggingu íbúðarhúsa á lóðunum. Eru fjölmörg slík verkefni í gangi.
Tillaga Reir þróunar gerir ráð fyrir að byggð verði samtals 7.262 fermetra, 2-6 hæða fjölbýlishús á lóðinni. Nýtingarhlutfall verði 1,5 ofanjarðar og 1,8 með bílastæðakjallara. Fjöldi íbúða samkvæmt tillögu eru 70 (100 m2 per íbúð ) og bílakjallari á tveimur hæðum, stærðir eru 1.730 m2 og 3.400 m2. Núverandi bensínstöð á lóð er 230 fermetrar. Arkitekt nýbygginga er Nordic Office of Architecture.
Lóðin er í jaðri Öskjuhlíðar og afmarkast af Bústaðavegi og Skógarhlíð. Markmið tillögunnar er að skoða möguleikann á að reisa íbúðarhúsnæði á lóðinni í sátt við núverandi bensínstöð, segir lóðarhafi. Bensínstöðin muni fá nýtt hlutverk sem getur t.d. orðið: hverfiskaffihús, sameign íbúa, ungbarnaleikskóli o.fl.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 22. febrúar.