„Við höfum alveg áhyggjur“

Vísindamenn telja að það geti dregið til tíðinda á Reykjanesskaganum …
Vísindamenn telja að það geti dregið til tíðinda á Reykjanesskaganum á næstu dögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir eru við öllu viðbúin ef til eldgoss kemur á Reykjanesskaganum á næstu dögum en í tilkynningu frá Veðurstofunni á föstudaginn kom fram að haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú mun magn kviku ná þeim þrösk­uldi í vikunni sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kviku­hlaupi og jafn­vel eld­gosi.

Sérfræðingar Veðurstofunnar meta það jafnframt svo að líkur eru á að eldgos geti hafist með mjög litlum fyrirvara, innan við 30 mínútum.

Viðvörunarflautur þeyttar ef ástæða er til

 „Við höfum alveg áhyggjur að ef til eldgoss kemur á næstu dögum að það verði flókið að rýma þessa staði þar sem fyrirvarinn getur orðið mjög skammur og enginn getur nákvæmlega sagt til um það hvar gosið kemur upp. Við vitum að fólk er í bænum og í Bláa lóninu en við erum með viðvörunarflautur til staðar sem munu verða þeyttar ef ástæða er til,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, við mbl.is.

Það tókst að koma heitu vatni á Grindavíkurbæ í gær og er áætlað að eðlilegur þrýstingur verði kominn á hitaveituna eftir helgina.

Eitt af aðalverkefnum undanfarna daga hefur verið vinnan við lagfæringuna á heitavatnslögninni sem lak mikið. Það tókst en þrátt fyrir það þá er vinnunni alls ekki lokið og ekki kominn fullur þrýstingur á lögnina sem mun taka einhverja daga,“ segir Hjördís. 

Hjördís segir að í vikunni hafi einnig tekist að koma köldu vatni á hafnarsvæðið og það sé verið að skipuleggja næstu skref sem eru að koma köldu vatni á fleiri svæði í bænum. Hún segir það ljóst að það muni taka tíma. 

Á morgun kl. 17 verður upplýsingafundur fyrir íbúa Grindavíkur í Laugardalshöll en þar munu íbúar fá upplýsingar um stöðuna á innviðum bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka