Fjórir jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn á Reykjanesskaga frá miðnætti.
Vegna roks á svæðinu hefur minna af smáskjálftum mælst, að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Tæplega 60 jarðskjálftar mældust í gær undir Sundhnúkagígaröðinni. Við Fagradalsfjall mældust heldur færri skjálftar, eða um 35.
Allt voru þetta litlir skjálftar, að sögn Einars, og mældist sá stærsti á Reykjanesskaganum í gær 1,4 stig, austan við Sýlingafell.
Spurður segir Einar skjálftavirknina á þessum svæðum vera svipaða og hefur verið á milli eldgosa.