Árs fangelsi fyrir stórfellt brot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi konu í árs fangelsi fyrir innflutning á …
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi konu í árs fangelsi fyrir innflutning á 1.010 ml af amfetamínbasa frá Gdansk í Póllandi í nóvember. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til eins árs fangelsisvistar fyrir stórfellt fíkniefnabrot í lok nóvember þegar hún stóð að innflutningi á samtals 1.010 ml af amfetamínbasa með styrkleikanum 45 til 47 prósent.

Voru efnin ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi en þau flutti dómfellda í farangri sínum frá Gdansk í Póllandi með flugi til Keflavíkurflugvallar.

Játaði brot sitt skýlaust

Við þingfestingu málsins játaði ákærða brot sitt undanbragðalaust og samþykkti upptöku efnanna. Var málið þar með flutt sem játningarmál og dómtekið eftir að saksóknari og verjandi höfðu tjáð sig um málavöxtu. Krafðist verjandi vægustu refsingar sem lög leyfa.

Engin gögn lágu fyrir um að ákærða hefði áður gerst sek um refsiverða háttsemi og leit dómari til þess auk skýlausrar játningar og samvinnu ákærðu. Brotið væri hins vegar stórfellt og hættueiginleikar efnisins miklir og þótti refsing því hæfilega ákveðin eins árs fangelsi óskilorðsbundið að frádregnu gæsluvarðhaldi frá 29. nóvember með fullri dagatölu.

Auk þess var henni gert að sæta upptöku efnanna og greiða 1.700.935 krónur í sakarkostnað sem samanstóð af matsgerð rannsóknarstofu og þóknun skipaðs verjanda hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert