Landris heldur áfram í Svartsengi en stöðugt gagnastreymi berst Veðurstofu Íslands um það í gegnum rauntímamælingar.
„Við búumst við því að það dragi til tíðinda í þessari viku. Hvenær það verður verður að koma í ljós,” segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð út í stöðu mála í sambandi við mögulegt eldgos.
Hún nefnir jafnframt að jarðskjálftavirknin undir kvikuganginum hafi verið svipuð frá miðnætti og síðustu daga.
Tæplega 60 jarðskjálftar mældust í gær undir Sundhnúkagígaröðinni. Við Fagradalsfjall mældust heldur færri skjálftar, eða um 35.
Jarðvísindamenn telja að líklega megi búast við gosi á Reykjanesskaganum á um 3-4 vikna fresti, ef innflæðið inn í kvikuhólfið heldur áfram. Síðast gaus 8. febrúar.