Klara Ósk Kristinsdóttir
Kynferðisafbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál leigubílstjóra sem sakaður er um að hafa brotið gegn konu í leigubíl í miðbæ Reykjavíkur í lok nóvember.
Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og yfirmaður kynferðisbrotadeildar, í samtali við mbl.is.
Ævar staðfestir jafnframt að um sé að ræða erlendan karlmann, en málið er enn til rannsóknar hjá lögreglunni.
Um er að ræða annað meinta kynferðisbrotið sem tengist leigubifreiðarakstri.
Hitt brotið átti sér stað í byrjun febrúar og er enn til rannsóknar hjá lögreglunni að sögn Ævars. Hann segir að búið sé að taka nokkrar skýrslur vegna málsins auk þess sem unnið sé að gagnaöflun samhliða því að greina þau gögn sem þegar hefur verið aflað.
Málið varðar tvo menn sem voru handteknir vegna gruns um nauðgun á dvalarstað annars þeirra í Kópavogi. Mennirnir höfðu sótt konu á leigubíl á veitingastað í Hafnarfirði en fóru ekki með hana að heimili hennar.
Þess í stað fóru þeir að hýbýlum annars þeirra í Kópavogi þar sem grunur leikur á því að kynferðisbrotið hafi átt sér stað.
Mennirnir sem grunaðir eru í málinu eru erlendir ríkisborgarar og starfar annar þeirra sem leigubílstjóri.