„Það er rétt að samningaviðræður milli Indlands og EFTA-ríkjanna fjögurra, þ.e. Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, um gerð fríverslunarsamnings hafa staðið yfir um árabil, en með hléum,“ segir í skriflegu svari Ægis Þórs Eysteinssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, við fyrirspurn mbl.is um stöðu fríverslunarsamningaviðræðna milli EFTA-ríkjanna og Indlands.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa viðræðurnar staðið í þrettán ár en að sögn Ægis hefur aukinn kraftur verið í þeim undanfarin misseri og munu þær nú á lokametrum.
Snúast viðræðurnar, eftir því sem Ægir greinir frá, meðal annars um niðurfellingu tolla á vörum, markaðsaðgang um þjónustuviðskipti, vernd hugverkaréttar, fjárfestingar og fleiri mál.
„Ljóst er að um mikinn áfanga verður að ræða er samningurinn verður undirritaður, enda Indland fjölmennasta ríki heims,“ segir Ægir að lokum og boðar nánari upplýsingar af þessum vettvangi eftir undirritun samningsins.