Hraunflæðilíkön gera ráð fyrir stöðugu hraunflæði upp á 600 rúmmetra á sekúndu úr 800 metra langri gossprungu í næsta eldgosi. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofunni, kynnti líkönin og líklegar sviðsmyndir næsta eldgoss á íbúafundi Grindvíkinga í kvöld.
Líklegast þykir að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúkagígaröðinni kvika kemur upp.
Fyrsta sviðsmyndin er dregin af eldgosunum milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, líkt og 18. desember og 8. febrúar.
Þá er líklegt að aðdragandinn verði skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Fyrirvarinn yrði mjög stuttur eða innan við 30 mínútur þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota.
Hraun gæti þá náð að Grindavíkurvegi innan við fjögurra klukkustunda.
Ef til eldgoss kæmi við Hagafell, líkt og 14. janúar, þá yrði aðdragandinn smáskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður.
Líklegur fyrirvari yrði um ein til þrjár klukkustundir frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst.
Hraun myndi þá ná varnargörðum við Grindavík á klukkustund.
Þá er líklegt að kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell valdi líklega verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.
Ef eldgos hefst innan varnargarða yrði aðdragandinn smáskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður.
Líklegur fyrirvari yrði um ein til fimm klukkustundir frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst.