Greiningar á gervihnattamyndum af öllu landinu hafa undanfarin ár leitt í ljós greinilegt og víðfeðmt landris, sem af myndunum að dæma er mest undir og við Vatnajökul. Sú kenning er ríkjandi að landrisið sé sökum bráðnunar jökla. Sem sagt, þungu fargi af landinu létt sem lyftist svo í kjölfarið.
„Ég set ákveðið spurningarmerki við það,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.
„Sér í lagi vegna þess að Langjökull og Hofsjökull eru líka að bráðna, en þú sérð ekki neitt í líkingu við þetta í kringum þá. Það ætti að minnsta kosti að sjást eitthvað þar, miðað við þá kenningu. Þeir hafa sömuleiðis bráðnað mjög mikið.
Og þá vaknar spurningin: Er þessi landlyfting mögulega tengd meiri virkni í möttulstróknum? Það er hugsanlegt. Og er þá aukin virkni á Reykjanesskaganum hluti af þeirri sögu?“ segir Þorvaldur.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.