Kalt loft berst til landsins frá íshafinu

Kalt loft berst til landsins á næsta sólarhringnum og tekur …
Kalt loft berst til landsins á næsta sólarhringnum og tekur við af hlýja geiranum sem hefur verið yfir landinu síðustu daga. mbl.is/RAX

Kalt loft frá íshafinu tekur við af hlýja geiranum sem hefur verið yfir landinu síðustu daga þegar lægðarsvæðið fikrar sig austur fyrir og dregur niður til okkar norðan áttir með köldu lofti. 

Þetta segir Ei­rík­ur Örn Jó­hanns­son, veður­fræðing­ur á Veður­stof­unni, í samtali við mbl.is spurður um veðrið næstu daga. 

„Það verða líklega skúrir eða slydduél vestan til í nótt eða fyrramálið áður en það styttir upp í framhaldinu,“ segir Eiríkur spurður um breytingar í veðrinu næsta sólarhringinn. 

Full snemmt að tala um vorið

Aðspurður segir Eiríkur útlit fyrir að umræddur kuldi verði fram yfir helgi, þó spárnar séu óáreiðanlegar svo langt fram í tímann. Hann segir að minnsta kosti kulda í kortunum svo langt sem hann treystir sér til að spá. 

Þannig fer heldur að kólna strax í nótt og annað kvöld verður farið að frysta á öllu landinu. 

Eiríkur segir að búast megi við því að frost nái 10 gráðum á Norðurlandi, en hann segir ólíklegt að frost fari undir tveggja stafa tölu á sunnanverðu landinu. Sérstaklega ekki á daginn, enda sólin farin að verma í dægursveiflunni. 

Er vorið er ekkert að koma?

„Það er full snemmt að fara að tala um það, við erum ekki einu sinni komin fram í mars,“ segir Eiríkur og hlær. 

„En við eigum að njóta góðu daganna þegar þeir koma, í hvaða mánuði sem það er,“ segir Eiríkur til að kæta landann. 

Veðurvefur mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert