Námsmenn líklegri til að upplifa neikvæða fæðingu

Stuðningur á meðgöngu getur haft mikil áhrif á neikvæðar tilfinningar …
Stuðningur á meðgöngu getur haft mikil áhrif á neikvæðar tilfinningar kvenna við eða eftir fæðingu. Ljósmynd/Colourbox

Konur í námi virðast vera í meiri áhættu á að upplifa áfall eða neikvæðar tilfinningar við eða eftir fæðingu.

Þetta kemur fram í niðurstöðum doktorsverkefnis Valgerðar Lísu Sigurðardóttir, ljósmóður og lektors við Háskóla Íslands, en verkefni Valgerðar fjallar m.a. um fæðingarreynslu og þróun meðferðar fyrir pör sem hafa neikvæða fæðingarreynslu.

„Það var eitt af því sem við vorum mjög hissa á og veltum vöngum yfir, af því við höfðum ekki séð það í neinum öðrum rannsóknum, en það hefur svo sem heldur ekkert verið skoðað sérstaklega. Okkar ályktun af því var að kannski er bara álag á íslenskum konum í námi, enda eru námsmenn oft líka að vinna með skóla, eiga önnur börn fyrir og annað sem spilar inn í. Það er bara okkar gisk, en við vitum í raun ekki af hverju það er.“

Stuðningur á meðgöngu mikilvægur

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er ljóst að stuðningur á meðgöngu getur haft mikil áhrif á neikvæðar tilfinningar kvenna við eða eftir fæðingu.

„Ef konur voru óánægðar með stuðning frá ljósmæðrum, þá jók það líkurnar á að þær upplifðu fæðinguna neikvætt.“ Hún segir þessar niðurstöður þó ekki hafa komið sér á óvart, enda hefur hún starfað sem ljósmóðir í fjöldamörg ár.

Valgerður segir nauðsynlegt að fjalla um þessa áhrifaþætti á meðgöngunni, enda ljóst að neikvæð fæðingarreynsla hefur raunveruleg áhrif á hlutverkið sem tekur svo við.

„Þess vegna finnst okkur mikilvægt að svipta hulunni af þessari umfjöllun. Um 5-6% þeirra sem fæða barn á ári hverju upplifa einhvers konar áfall eða hafa neikvæða reynslu af fæðingu, sem eru um 250-300 konur ár hvert.“

Hún segir það ljóst af erlendum rannsóknum að neikvæð fæðingarreynsla eða áföll í fæðingu getur haft slæm áhrif á andlega líðan mæðra og jafnvel rofið tengsl að einhverju leyti milli móður og barns.

„Ef reynslan situr mikið í konum þá er ekki mikið svigrúm til að að takast á við nýja móðurhlutverkið. Þá eru líka auknar líkur á því að konur með neikvæða reynslu eignist börn með lengra millibili, eða ákveði að eignast færri börn. Slíkt getur því haft bein áhrif á fjölskylduáform.“

„Nóg að til staðar sé fagaðili sem hlusti“

Doktorsverkefni Valgerðar samanstóð af þremur rannsóknum tengdum viðfangsefninu. Önnur rannsóknin var gerð á konum sem leituðu sér aðstoðar vegna neikvæðrar fæðingarreynslu. Í niðurstöðum hennar kom fram að þær hefðu margar viljað að fagaðili hefði haft frumkvæði að því að athuga líðan þeirra gagnvart fæðingunni.

„Það var ljóst að þær hefðu greinilega viljað vita af þeim möguleika að fara yfir fæðinguna og því er reynt að tryggja að það sé gert í dag.”

Þá segir hún það sumum erfitt að hafa frumkvæði að því að tala um erfiða reynslu og vinna úr því eftir að að hafa fætt.

„Mörgum finnst þægilegt að geta farið yfir fæðingarferlið. Þá er nóg að til staðar sé fagaðili sem hlustar og viðurkennir þeirra upplifun.”

Í framhaldi af niðurstöðum rannsóknarinnar var ákveðið að efla slíka þjónustu, og undanfarin ár hafa verið haldin námskeið fyrir ljósmæður þar sem er lögð áhersla á að kenna hvernig eigi að bjóða konum betri stuðning á meðgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert