Jarðvísindamenn hjá Veðurstofu Íslands hafa áhyggjur af því að ekki takist að hafa nægan fyrirvara til að tryggja öryggi íbúa í Grindavík í næsta eldgosi. Sérstaklega á það við að næturlagi þar sem fyrirvarinn gæti reynst stuttur.
Vísindamennirnir hafa einblínt á það verkefni undanfarið að segja til um hversu langan fyrirvara fólk hefur til að koma sér frá Grindavík ef og þegar gýs að nýju. Grindvíkingum hefur verið heimilt að dvelja og gista í bænum þó það sé á eigin ábyrgð.
„Það setur auka stress á mannskapinn hérna þegar fólk er sofandi í bænum,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.
Hann segir að menn telji ólíklegt að ef gos fer inn í Grindavík að ekki takist að rýma. „En atburðir með litlar líkur gerast engu að síður. Það er eitt að koma vakandi fólki í burtu og svo annað að koma fólki sem er sofandi í burtu,“ segir Benedikt.
Hann bendir á að fyrirvarinn verði sífellt skemmri eftir því sem fleiri gos verða á svæðinu.
„Okkur finnst mikilvægt að koma því á framfæri að það eru líkur á því að það reynist ekki nægur fyrirvari, þó á sama tíma að það sé ólíklegt að það gerist,“ segir Benedikt.
„Kannski verður fyrirvarinn bara ein klukkustund þó það sé líklegra að hann verði þrír eða fjórir klukkutímar. En við vitum að fyrirvarinn er alltaf að minnka og það er óskaplega erfitt að meta það hversu mikið hann minnkar,“ segir Benedikt.