Fundur Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins hófst hjá ríkissáttasemjara klukkan 9 í morgun.
Breiðfylking stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins og Samtök atvinnulífsins náðu samkomulagi um forsenduákvæði í kjarasamningsviðræðum, hvað varðar þróun verðbólgu og vaxta, á fimmtudag.
Daginn eftir sagði VR sig frá breiðfylkingunni og sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, það vera vegna þess að SA hafi sett VR afarkosti um forsenduákvæðin.
Í kjölfarið hafa Samtök atvinnulífsins og þau stéttarfélög sem eftir eru í breiðfylkingunni, Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn, fundað hjá ríkissáttasemjara um helgina í von um að leggja lokahönd á samninga deiluaðila.
Fundað var bæði á laugardag og sunnudag en vegna fjölmiðlabanns hefur engin tjáð sig um gang mála síðan tíðindin bárust um forsenduákvæðin.