Syntu með selum til að bjarga ferðamanni

Björgunarsveitarmennirnir syntu að manninum.
Björgunarsveitarmennirnir syntu að manninum. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitin Lífsbjörg bjargaði ferðamanni af flæðiskeri við Ytri-Tungu á Snæ­fellsnesi. Maðurinn hafði verið að skoða seli er hann varð á flæðiskeri staddur. Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. 

„Hann var orðinn vel kaldur og það mátti ekki tæpara standa,“ segir Jón Þór en er björgunarsveitarmenn komust í land með manninn hafði flætt yfir skerið sem hann stóð á.

Mennirnir óðu eins langt og þeir komust.
Mennirnir óðu eins langt og þeir komust. Ljósmynd/Landsbjörg

Bundu manninn við sig 

Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitin voru kölluð á staðinn rétt fyrir klukkan 18 í kvöld. 

Þrír björgunarsveitarmenn fóru í flotgöllum bundnir saman í línu að manninum. Þeir óðu af stað en þurftu að synda restina af leiðinni þar sem þeir voru hættir að botna, að sögn Jóns Þórs. 

Nokkuð þung undiralda var á staðnum og útsogið talsvert.

„Þeir synda þarna í fylgd sela út að skerinu og komust upp á skerið til hans og bundu hann við sig. Síðan eru þeir dregnir í land svo að einn björgunarsveitarmaður er í raun með manninn ofan á sér,“ segir Jón Þór og bætir við að þegar björgunarsveitarmennirnir náðu til botns gátu þeir borið manninn restin af leiðinni. 

Um klukkan hálf sjö var maðurinn kominn inn í sjúkrabíl, en að sögn Jóns Þórs hafði maðurinn ekki ofkælst en orðið kaldur. 

Nokkuð þung undiralda var á staðnum og útsogið talsvert.
Nokkuð þung undiralda var á staðnum og útsogið talsvert. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert