„Við þurfum auðvitað að halda lífi í Grindavík,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á upplýsingafundi fyrir íbúa Grindavíkur sem fer nú fram í Laugardalshöll. Meðal annars var yfir stöðu innviða og stöðu jarðhræringa.
Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, tók fyrstur til máls.
Hann sagði að ef miðað er við það magn af kviku sem kom upp í eldsumbrotum á 9. til 13. öld er ljóst að mjög mikið magn af kviku eigi eftir að koma upp á yfirborðið í þessum eldsumbrotum. Freysteinn sagði tímarammann vera óljósan.
Hann sagði að umbrotasvæðið yrði ekki hættulaust fyrr en að þrýstingur hættir að vaxa í tengslum við kvikusöfnun á svæðinu. Á meðan það er landris er þrýstingur.
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofunni, tók næst til máls og sagði að það styttist í næsta gos.
Skjálftavirkni sem sést hefur um helgina er sambærileg virkni fyrri eldgosa. Kristín nefndi þó að skjálftavirkni minnki með ítrekuðum kvikuhlaupum. Því verði fyrirvarinn fyrir gos meðal annars minni.
Getur komið að kvikuhlaupi án þess að til eldgoss komi en hún sagði það ósennilegt. Kristín fór yfir líklegar sviðmyndir miðað við fyrri eldgos. Nánar má lesa um þær sviðsmyndir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Kristín sagði meðal annars að ekki væri hægt að útiloka að það gysi innan varnargarða. „Ef hraun kemur upp í Grindavík þá flæðir það náttúrulega bara út um allt,“ sagði hún.
Varðandi nýtt hættumatskort, sem var gefið út í dag, nefndi Kristín að það gætu leynst sprungur og aðrar hættur utan svæðisins sem er merkt á kortinu.
Kristín tók að lokum undir orð Freysteins þess efnis að á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og þar af leiðandi hætta.
Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, fór yfir vinnu við varnargarða.
Hann nefndi að vinna við að verja mikilvæga innviði hófst árið 2021 með eldgosinu við Fagradalsfjall.
Undanfarið hafa verkaðilar unnið við að hækka varnargarðana við Grindavík.
Þá er búið að gera áætlanir um fleiri garða í kringum Grindavíkurbæ. Á föstudag fékkst heimild frá dómsmálaráðuneytinu í frekari framkvæmdir. Þær hófust á laugardag og munu taka einhverjar vikur að sögn Ara.
Næstur tók til máls Hallgrímur Örn Arngrímsson, jarðfræðingur og verkfræðingur, hjá Verkís. Hann stýrir jarðkönnunarverkefni í Grindavík.
Hann sagði að vinna sé hafin að kanna stórar sprungur með áherslu á framtíðar búsetu á svæðinu.
Hallgrímur nefndi að vesturhluti bæjarins hefði sigið um sirka 1,3 metra. Jarðsjá er notuð til að meta holrými og aðrar hættur kerfisbundið.
Hallgrímur sagði að margar nýjar litlar og stórar holur hefðu myndast í bænum. Hann sagði vegna frosts í jörðu sjást víða ekki vísbendingar um holrými.
Hann sagði að vinna teymisins myndi klárast í vor eða sumar.
Þá nefndi Hallgrímur að verið sé vinna í gerð kortasjár í samvinnu við almannavarnir sem verður uppfærð jafnóðum.
Atli Geir Júlíusson, sviðstjóri hjá Grindavíkurbæ, fór yfir stöðu innviði bæjarins.
Hann sagði að bæjaryfirvöld og íbúar geti verið bjartsýn að ákveðnu leyti varðandi vatnslagnir, en nefndi að austurhluti bæjarins gæti helst verið laskaður.
Verið er að undirbúa að hleypa köldu vatni til íbúa en því hefur einungis verið hleypt á hafnarsvæðið. Atli Geir sagði að vatni yrði hleypt á í samráði við íbúa.
Hann sagði að fráveitan var starfhæf eftir atburði 14. janúar. Mestar líkur eru á tjóni í austanverðum bænum.
Atli Geir sagði að höfnin sé starfhæf en greinilegar skemmdir eru á bryggjum og allt að 30-40 cm jarðsig á hafnarmannvirkjum.
Hann sagði samfélagslegir innviðir bæjarins séu í misgóðu ásigkomulagi, og nefndi meðal annars sprunguna sem myndaðist í íþróttahúsinu.
Reynir Sævarsson hjá Eflu fór yfir stöðu rafveitu og hitaveitu bæjarins.
Hann sagði að dreifikerfi rafveitunnar sé laskað en rafmagn sé þó á nánast alls staðar.
Reynir sagði að flestallar byggingar séu tengdar rafveitunni og nefndi að varaflsstöð er á svæðinu.
Hann sagði að sveit pípara hafi farið inn í byggingar til þess að loka fyrir neysluvatn, loka gluggum og þrýstijafna ofnakerfahúsanna.
Reynir sagði að búið væri að gera við stóran leka á stofnæðinni með nýtti lögn. Þá nefndi hann að nokkrir smærri lekar séu í dreifikerfi hitaveitunnar.
Reynir sagði að frekari viðgerðir á dreifikerfinu séu framundan og að hækka þrýsting í áföngum.
„Bíðum eftir okkar sjöunda eldgosi,“ sagði Úlfar sem var síðastur upp í pontu, en líkt og áður sagði gaus fyrst í mars árið 2021 við Fagradalsfjall.
Hann sagði að áætlað sé að síðustu daga hafi verið gist í tíu til tólf húsum í Grindavík. Úlfar ítrekaði þó að embættið mælti ekki með því.
„Við þurfum auðvitað að halda lífi í Grindavík,“ sagði hann og nefndi að mikið þrekvirki hefði verið unnið í því að viðhalda verðmætum og innviðum frá 10. nóvember.
„Viljum sjá þennan bæ blómstra að nýju.“
Úlfar sagði að hann heimsæki Gindavík og Svartsengi reglulega til að meta ástandið.
Hann nefndi að lokum að það væri skelfileg niðurstaða að halda ekki lífi í bænum líkt og hefur verið gert.