Vatn flæðir yfir þjóðveginn við Múlakvísl, vestast á Mýrdalssandi, á tveimur stöðum vegna leysinga á svæðinu. Unnið er að því að hleypa vatni betur af svo hætti að flæða yfir veginn.
Þetta segir Ágúst Freyr Bjarnason, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, í samtali við mbl.is.
Ágúst segir Vegagerðinni hafa borist upplýsingar um að vatn rynni með fram veginum fyrr í dag. Síðan þá hafi bæst í vatnsflæðið, en sem betur fer hafi ekki orðið miklar skemmdir á veginum.
„Við erum á staðnum og hægjum á bílum á meðan það er verið að hleypa betur af,“ segir Ágúst og áréttir að ekki hafi þurft að loka veginum vegna leysinganna.
„Það keyra bara allir rólegir yfir.“
Aðspurður segir Ágúst leysingar á svæðinu ekki óvanalegar og þaðan af síður í asahláku eins og nú er.
„Það er aðallega þetta tíðarfar sem er óvanalegt,“ segir Ágúst og bætir við.
„Hiti, rigning, rok og snjór, þá fer allt af stað.“