Viðbrögð yfirvalda óforsvaranleg

Frá íbúafundinum í kvöld í Laugardalshöll.
Frá íbúafundinum í kvöld í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta alveg óforsvaranlegt að yfirvöld ætli ekki að bregðast neitt við þessu hættuástandi,“ sagði Hörður Guðbrands­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur, á íbúafundi fyrir Grindvíkinga í kvöld eftir að hann spurði hvernig brugðist yrði við yfirvofandi hættuástandi. 

Hörður Guðbrands­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur.
Hörður Guðbrands­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur.

„Við auðvitað höfum okkar viðbragð. Miðað við stöðuna eins og hún er í dag þá dvelja mjög fáir í bænum... Okkar viðbragð snýr að því að geta rýmt bæinn, hratt og örugglega, og við teljum okkur geta það,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. 

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, bætti við að SMS yrði sent á alla þá sem eru á svæðinu um leið og Veðurstofan gerði almannavörnum vart um að einhver atburðarás væri að fara af stað. Í kjölfarið fara lúðrar í gangi á svæðinu, en þeir verða prufukeyrðir klukkan 22 í kvöld. 

Úlfar sagði að Hörður hefði bersýnilega miklar áhyggjur af ástandinu, „en þú sem formaður stéttarfélags þarft líka að hafa smá áhyggjur af því þínir félagsmenn hafi atvinnu, ekki satt?“ 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Hörður svaraði og sagði að það yrði að vera á grundvelli öryggis. „Það er ekki hægt að vera með atvinnu þarna inni ef að öryggi er ekki tryggt, eins og er núna.“

Hörður benti á að opna skyldi bæinn eftir að gosi sé lokið, þegar að minni hætta sé á næsta gosi, ekki rétt fyrir gos. 

Úlfar sagði það rétt hjá honum og að hugmyndin sé að hefja vinnu strax í því gati sem myndist á milli eldgosa. Hann sagði að það sé ákveðin áhætta til staðar en að hann telji ásættanlegt að vera með rekstur inni í bænum og veru íbúa

Úlfar ítrekaði þó að bærinn sé ekki fyrir fjölskyldufólk og ekki fyrir almenna búsetu og bætti við að sárafáir dvelji í Grindavík, en gist hefur verið í um tíu til tólf húsum. 

Ferðamenn á svæðinu 

Íbúi við Efrahóp nefndi að hún hefði séð talsvert af ferðamönnum á svæðinu, þar á meðal að taka myndir af húsarústum í götunni og að klöngrast yfir nýtt hraun. Hún spurði hver bæri ábyrgð á því að vakta nýja hraunið og gagnrýndi ósamræmi í aðgerðum lögreglu. Fyrirspurnin uppskar mikið lófaklapp. 

Hraun flæddi á hús við Efrahóp í Grindavík í janúar.
Hraun flæddi á hús við Efrahóp í Grindavík í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar sagði að heilt yfir hefðu ferðamenn ekki verið til vandræða inn í Grindavík. Hann sagði að um erfitt verkefni sé að ræða sem hefur staðið yfir í langan tíma. 

„Það verður alltaf einhver leki, en við reynum að passa upp á þetta,“ sagði Úlfar og bætti við að málið yrði rætt á fundi aðgerðarstjórnar á morgun. 

Úlfar sagði að aðgerðir lögreglu væru stöðugt endurskoðaðar. 

Misvísandi skilaboð jarðvísindamanna

Einn íbúi gagnrýndi misvísandi upplýsingar frá jarðvísindamönnum. Frey­steinn Sig­munds­son, jarðeðlis­fræðing­ur við Há­skóla Íslands, sagðist skilja spurninguna vel og benti á að allar upplýsingar væru túlkanir. 

Fólk hefði mismunandi sýn en mikilvægt sé að muna að fræðimenn séu sammála um margt, meðal annars að kvikugangur hefði myndast undir Grindavík í nóvember. 

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað er þarna undir, það eru túlkanir,“ sagði Freysteinn. 

Frá fundinum.
Frá fundinum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert