Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða manni miskabætur vegna handtöku við rannsókn lögreglu á máli hans, sem síðar var fellt niður. Bæturnar hljóða upp á 75.000 kr.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 14. febrúar en var birtur í dag, að maðurinn hefði farið fram á 800.000 kr. í bætur.
Atvikið átti sér stað árið 2018 þegar maðurinn var stöðvaður senmma morguns við reglulegt umferðareftirlit. Hann var handtekinn grunaður um að hafa ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.
Í dómnum segir að tveir lögreglumenn sem að málinu komu hafi borið um það vitni fyrir dómi að hafa stöðvað manninn við reglulegt umferðareftirlit, en hvorugur þeirra mundi hvað hefði orðið til þess að ákveðið hafi verið að fylgja bifreið mannsins eftir og stöðva hann.
Báðir lögreglumenn staðfestu það sem fram kemur í lögregluskýrslu um atvik, þar á meðal að
grunur hefði vaknað um að maðurinn væri undir áhrifum fíkniefna þar sem kannabislykt hefði fundist og að á manninum hefðu verið sjáanleg einkenni, munnþurrkur og rauðleit augnhvíta, en hann hefði ekki getað gefið neitt endanlegt svar um fíkniefnaneyslu.
Í aðilaskýrslu mannsins fyrir dómi kom meðal annars fram að lögregla hefði á vettvangi spurt
hann að því hvenær hann hefði síðast reykt kannabis og að hann hefði svarað því til að það væru nokkrir mánuðir síðan. Hann teldi að ekki hefði verið kannabislykt af sér eða í bílnum, þar sem hann reykti aldrei í bílnum. Þá skýrðu báðir lögreglumenn svo frá fyrir dómi að strokpróf hefðu ekki verið í lögreglubifreiðum við umferðareftirlit þegar þessi atvik urðu á árinu 2018. Maðurinn hefði verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og verið kynnt réttarstaða sakbornings.
Fram kemur í dómnum að ágreiningslaust sé að þvagprufa sem tekin var á lögreglustöð árið 2018 hafi reynst vera jákvæð fyrir kannabis og að blóðsýni hafi verið úr manninum í framhaldi af því. Niðurstaða rannsóknar á lífsýnum leiddi í ljós að í þvagi var niðurbrotsefni kannabis, en ekki mældust fíkniefni í blóði. Niðurstaða þvagsýnis sýnir að maðurinn hafði áður neytt kannabisefna, en ekki er frekar upplýst um hversu langt var liðið frá neyslu. Niðurstaða blóðsýnis staðfesti að við aksturinn umræddan morgun var hann ekki undir áhrifum fíkniefna þannig að sannað væri að hann hefði gerst sekur um það brot sem honum hafði verið gefið að sök og því var mál hans fellt niður 18. september 2019.
Tekið er fram í dómi héraðsdóms, að ekkert hafi komið fram um að við fyrri kannabisneyslu, sem maðurinn greindi frá, hafi hann brotið gegn umferðarlögum með akstri undir áhrifum.
„Engra sérfræðigagna nýtur við í málinu um það hversu lengi eftir neyslu niðurbrotsefni kannabis finnst í þvagi og ósannað er að stefnandi hafi veitt lögreglu rangar upplýsingar um það hversu langt var um liðið frá neyslu hans á kannabisefnum. Verður hann ekki með framburði sínum á vettvangi eða með öðrum hætti talinn hafa valdið eða stuðlað að handtöku sinni. Rannsókn málsins leiddi ekki til útgáfu ákæru heldur var málið fellt niður. Þegar af þeirri ástæðu á stefnandi rétt til bóta vegna handtöku samkvæmt 2. mgr. 246. gr., sbr. 1. mgr., sakamálalaga, en þar er mælt fyrir um hlutlæga bótaábyrgð og verður bótaréttur ekki skertur enda þótt fullt tilefni hafi verið til aðgerða lögreglu,“ segir í dómi héraðsdóms.
Dómurinn segir jafnframt, að það hafi einnig verið fullt tilefni til töku blóðsýnis í ljósi niðurstöðu þvagsýnis, en það mun hafa verið veitt með samþykki mannsins.
„Engin sýnileg sönnunargögn styðja framburð stefnanda um meinta ofurhræðslu hans við nálar við töku blóðsýnis. Verður að virtu öllu framangreindu og gögnum málsins hvorki fallist á það með stefnanda að aðgerðir lögreglu hafi verið saknæmar né ólögmætar eða að meðalhófs hafi ekki verið gætt við rannsókn málsins,“ segir héraðsdómur.
Dómurinn telur að maðurinn eigi rétt til bóta vegna handtökunnar. „Við mat á fjárhæð bóta er til þess að líta að framlögð gögn bera ekki annað með sér en að réttra aðferða og meðalhófs hafi verið gætt við handtökuna, sem aðeins stóð yfir í eina klukkustund og tvær mínútur. Að
þessu virtu eru hæfilegar bætur ákveðnar að fjárhæð 75.000 krónur.“