Hallur Heiðar Hallsson, fyrrum ábúandi á Skálará neðan Stekkjarbakka, segir litla eftirsjá að húsinu sem brann í nótt. „Þetta var handónýtt og heilsuspillandi húsnæði,“ segir Hallur.
Hallur furðar sig á því hvað það hafi tekið borgina, núverandi eiganda þess, langan tíma að rífa það. Hann bendir á eldhættuna af því að láta það standa autt og yfirgefið, og sem dæmi hafi verið kveikt í skúr við húsið fyrir ári síðan.
Nokkuð langt er síðan að listamaðurinn Jón Þorgeir Ragnarsson, betur þekktur sem Nonni bjó í öðrum hluta hússins. Nonni er nú látinn en mörg listaverka hans prýða veggi hússins sem nú brann.
Í seinni tíð hefur húsið verið hvað þekktast fyrir kanínur sem hafa leitað skjóls í næsta nágrenni hússins í Elliðaárdal.
Eva Bergþóra Þorbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, segir niðurrif á húsinu hafa lengi staðið til.
„Niðurrifið var á verkefnaskrá hjá verktaka en hafði ekki komist í framkvæmd. Ef þessi verktaki kemst ekki í þetta þá verður fenginn annar.“
Eva Bergþóra segir aldur hússins, sem er tæplega hundrað ára, hafa flækt ferlið lítið eitt, en öll leyfi séu nú í hendi og býst hún við að húsið verði rifið á næstu dögum.