„Það kom okkur gríðarlega á óvart að fulltrúi meirihlutans væri að lýsa vantrausti á sinni eigin tillögu,“ segir Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.
Í samtali við mbl.is segir Ragnar fulltrúa Fjarðalistans hafa kosið gegn tillögu um nýtt fyrirkomulag fræðslumála í bæjarfélaginu á aukafundi sveitarstjórnarinnar síðdegis. Það komi honum spánskt fyrir sjónir þar sem Fjarðalistinn tilheyri meirihluta bæjarstjórnarinnar.
„Á fundinum í dag, öllum að óvörum, myndaðist nýr meirihluti þegar annar fulltrúi Fjarðalistans greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þar er orðinn trúnaðarbrestur,“ segir Ragnar.
Tillagan var engu að síður samþykkt á fundinum en aðeins einn greiddi atkvæði gegn tillögunni, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, fulltrúi Fjarðalistans. Að sögn Ragnars kom atkvæðagreiðslan minnihlutanum verulega á óvart enda tillagan unnin í þverpólitískri sátt.
Meirihlutann skipa Framsókn, með þrjá fulltrúa, og Fjarðalistinn með tvo. Sjálfstæðisflokkurinn skipar minnihluta bæjarstjórnarinnar en er aftur á móti stærsti flokkurinn, með fjóra fulltrúa af níu.
Á fundinum, sem er aðgengilegur á YouTube, gerði Hjördís grein fyrir atkvæði sínu og kvaðst þar hafa greitt gegn tillögunni þar sem hún taldi hana skorta samráð við skólastjórnendur og foreldrafélög.
„Við höfum aldrei í þessu ferli heyrt mótbárur frá meirihlutanum og töldum okkur vera að þessu í þverpólitískri samstöðu. Við hefðum getað fellt tillöguna í dag og þar af leiðandi fellt tillögu meirihlutans, en það hefði auðvitað verið fullkomlega óábyrgt,“ segir Ragnar sem segir tillöguna til bóta fyrir sveitarfélagið.
Tillagan sem um ræðir lýtur að breytingum á fræðslustarfi í Fjarðabyggð. Breytingarnar fela í sér að gert er ráð fyrir sameiningu allra skólanna í Fjarðabyggð þ.e. að allir grunnskólar sameinist undir Grunnskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna.
Það sama gildi einnig fyrir leikskóla sem verða Leikskóli Fjarðabyggðar og sömuleiðis tónlistarskóla sem sameinist undir Tónlistarskóla Fjarðabyggðar. Núverandi skólar verði starfstöðvar nýju stofnananna.
„Sú vinna sem okkur var falin er enn í gangi og í rauninni er sú vinna núna öll í uppnámi vegna þess að það er ekki eining innan meirihlutans,“ segir Ragnar og bætir við að ótækt sé að ætlast til þess að minnihlutinn taki áfram þátt í slíkri vinnu.
„Við munum ekki taka þátt í vinnu innan starfshóps á vegum sveitarfélagsins á meðan óeining ríkir á meðal meirihlutaflokkanna og meirihlutinn er óstarfhæfur.“
Fundinn má sjá hér fyrir neðan í heild sinni.