Lögreglan hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum í hringferð flokksins um landið til að tryggja öryggi ráðherra og þingmanna. Hefur þetta ekki verið gert á síðustu árum þegar flokkurinn hefur farið í hringferð.
Þetta segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í skriflegu svari til mbl.is.
„Það er rétt að lögregla hefur verið á staðnum á einhverjum viðburðum og hlutum leiðarinnar. Þetta er ekki að ósk þingflokksins eða ráðherranna sjálfra, heldur gerir lögreglan áhættumat og tekur ákvarðanir um löggæslu byggt á því,“ segir Hildur.
Hún segir þingmenn að sjálfsögðu þakkláta lögreglunni fyrir sín góðu störf og segir samskiptin hafa verið jákvæð í alla staði.
„Á sama tíma er þetta óneitanlega breyttur veruleiki, og auðvitað ekki sá sem við hefðum sjálf kosið,“ segir hún.
Á fundi í Reykjanesbæ í síðustu viku hélt flokkurinn opinn fund um útlendingamál sem rúmlega 100 manns sóttu. Blaðamaður mbl.is á staðnum taldi fimm óeinkennisklædda sérsveitarmenn á fundinum.
„Það hefur verið mikill kostur á Íslandi að fólk í opinberum stöðum fer að jafnaði um samfélagið líkt og aðrir án þess að það kalli á sams konar gæslu og víðast hvar annars erlendis,“ segir Hildur en bætir við:
Hins vegar hafa uppákomurnar og harkan í mótmælum síðustu vikur og mánuði breytt landslaginu upp að einhverju marki, sem er miður. Og ég held að allir vonist sannarlega til þess að það verði ekki varanleg breyting.“