Stefna á opnun 12 dögum eftir stórbruna

Mikið tjón varð á Fellsmúla en dekkjaverkstæði N1 slapp merkilega …
Mikið tjón varð á Fellsmúla en dekkjaverkstæði N1 slapp merkilega vel vegna eldvarnarveggs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Betur fór en á horfðist hvað varðar hluta húsnæðis N1 í Fellsmúla 24 þegar mikill eldsvoði kom upp um miðjan mánuðinn. Fyrirtækið bíður eftir samþykkti heilbrigðiseftirlitsins svo það geti opnað hluta starfseminnar að nýju.

Svo segir Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri hjá N1. 

Eldveggur aðskilur tvö rými fyrirtækisins. Annars vegar dekkjaverkstæði og hins vegar viðgerða- og smurþjónustu. Það sem er dekkjaverkstæðismegin slapp vel og er það sá hluti sem til stendur að opna að nýju.

„Það var ótrúlega lítið vatn og reykur sem fór þarna inn,“ segir Ýmir.

Að sögn hans er hins vegar annað uppi á teningnum hvað viðgerðarrýmið varðar. Það er gjörónýtt. „Við höfum ekki tekið ákvörðun um það hvað gert verður við það rými,“ segir Ýmir.   

Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1.
Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1. Ljósmynd/Aðsend

Bíða eftir grænu ljósi 

Mikill eldur kom upp í húsinu þann 15. febrúar síðastliðinn. Forsvarsmenn annarra fyrirtækja í húsinu hafa tjáð sig um að miklar skemmdir hafi orðið í þeim rýmum sem hýsa starfsemi þeirra í húsinu. Þeirra á meðal eru Slippfélagið, Pizzan og Curvy.

„Við erum að bíða eftir því að fá grænt ljós frá heilbrigðiseftirliti varðandi loftgæði,“ segir Ýmir um væntanlega opnun verkstæðisins. 

„Aðallega erum við núna að klára með tryggingarfélaginu að hafa samband við alla sem voru með dekk hjá okkur. Sum þeirra skemmdust,“ segir Ýmir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert