Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir enn nokkuð í að rannsókn á matvælalagersmálinu svokallaða ljúki. Sértaklega þurfi að vanda til verka þegar kemur að manssalshluta málsins.
„Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir sýnast í fyrstu,“ segir Grímur.
Hann segir að unnið sé með skýrslu heilbrigðiseftirlitsins í málinu. Í henni kemur meðal annars fram að eigendur hafi óskað eftir því að fá að nýta hluta matvælanna. Þá segir að þeir hafi reynt að koma matvælum undan með því að henda þeim í nærliggjandi runna að því er fram kemur í skýrslunni.
Þá kemur fram að vísbendingar séu um að fólk hafi dvalist í kjallaranum þar sem lagerinn var staðsettur. Koddar, dýnur, matarílát og tjald fundust í kjallaranum, sem var óhreinn og ekki meindýraheldur.
„Það þarf að vanda til verka með mansalshluta málsins,“ segir Grímur.