Varasamt ferðaveður

Gul viðvörun er á Austfjörðum og Suðausturlandi.
Gul viðvörun er á Austfjörðum og Suðausturlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er vestan hvassviðri eða stormi á suðaustanverðu landinu fram eftir degi og hríðarverðri á Austfjörðum. Það verður varasamt ferðaveður, að því er segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Gular veðurviðvaranir hafa tekið gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Á Austfjörðum verður gul viðvörun í gildi til klukkan 13 í dag. Spáð er vestan og norðvestan 15-23 m/s og slyddu en snjókoma verður til fjalla. Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum á fjallvegum. Afmarkaðar samgöngutruflanir eru líklegar.

Á Suðausturlandi verður gul viðvörun í gildi til klukkan 18 í dag. Spáð er vestan 18-23 m/s, með hviðum yfir 35 m/s og verður hvassast við Öræfajökul. Aðstæður geta verið hættulegar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Á landinu í dag er annars spáð norðvestan og vestan 8-15 m/s, en 15-23 suðaustan til fram eftir degi. Víða verður éljagangur og hiti kringum frostmark. Dregur úr vindi og éljum með kvöldinu og kólnar enn.

Austlæg átt verður á morgun, víða 8-13 m/s og dálítil él, en hægara og skýjað með köflum norðvestan til. Frostlaust verður syðst á landinu, en frost annars 1 til 12 stig, kaldast norðanlands.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert