Viðvörunarflautur sem minna á kjarnorkuæfingu

Æfingin í gær gekk vel.
Æfingin í gær gekk vel. mbl.is/Eyþór Árnason

Viðvörunarflautur ómuðu í Grindavík og Svartsengi í gærkvöldi í um eina mínútu. Hljóðið er samskonar og í loftvarnarflautum sem notaðar voru í æfingum fyrir kjarnorkuárásir hér áður fyrr.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is, en heyra má í flautunum í meðfylgjandi myndskeiði. 

„Fólk sem er 50 ára og eldra fær smá óþægilega tilfinningu, því maður man eftir þessu sem krakki þegar maður heyrði þessar æfingar í gamla daga. Þetta er sama hljóð og maður heyrði þegar maður var yngri,“ segir Hjördís.

Þá fyrir kjarnorkuæfingar?

„Já. Þá voru þetta kallaðar lofvarnarflautur.“

Hægt er að hlusta á flauturnar óma um bæinn í myndskeiði sem Víkurfréttir hafa birt.

Fer ekki á milli mála 

Hjördís segir að æfingin hafi gengið vel í gær og að það fari ekki á milli mála að þegar viðvörunarflauturnar fari af stað þá þýði það að fólk þurfi að koma sér í burtu.

Ef það gýs á svæðinu aftur munu flauturnar fara af stað, eins og í síðasta eldgosi.

Var æfingin framkvæmd þannig að almannavarnir virkjuðu flauturnar en lögreglan á Suðurnesjum þurfti að setja þær í gang.

Hjördís segir að nú sé unnið í því að tryggja að hægt sé að setja flauturnar í gang frá höfuðborgarsvæðinu. Þannig þyrfti ekki staðbundinn viðbragðsaðila til að setja flauturnar í gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert