Beðið eftir næsta viðburði

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist vera rólegur eins og …
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist vera rólegur eins og staðan líti út í augnablikinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að beðið sé eftir næsta viðburði og allt viðbragð beinist að því að sjöunda eldgosið á tæpum þremur árum á Reykjanesskaganum hefjist innan tíðar.

„Við gerum ráð fyrir því að það fari að gjósa fljótlega. Ég held að það séu allir meðvitaðir um það,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.

Úlfar segir að það sé rólegt sé um litast í Grindavík og það séu fáir á ferli í bænum. Hann segir að vinna við varnargarðanna sé í fullum gangi sex daga vikunnar og sú vinna gangi vel. 

Gist í sjö húsum í nótt

„Þessi varnaðarorð lögreglustjóra hafa greinilega borið ágætis árangur. Það er dvalið í fáum húsum í bænum og ég held að það hafi verið gist í sjö húsum í nótt. Atvinnustarfsemin í bænum er takmörkuð og það er helst sjávarútvegsfyrirtækin sem halda úti starfsemi og þá með fáum starfsmönnum,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að menn geti alltaf haft einhverjar áhyggjur en sjálfur segist hann vera rólegur eins og staðan líti út í augnablikinu. Viðvörunarflautur ómuðu í Grindavík og Svartsengi í um eina mínútu í fyrrakvöld og segir Úlfar að slípist til hvernig þeir séu ræstir.

700-900 gestir daglega í Bláa lóninu

„Mesta starfsemin er í Bláa lóninu en menn eiga ekki von á því að það gjósi innan varnargarðsins Svartsengismegin,“ segir Úlfar en hann segir að gestir Bláa lónsins séu að jafnaði 700 - 900 yfir daginn og að um 100 gestir gisti á hótelum staðarins.

Á fundi almannavarna með íbúum Grindavíkur í fyrrakvöld kom fram í máli Sólnýjar Pálsdóttur sem og í viðtali við hana í Dagmálum mbl.is þar sem hún sagði ferðamenn valsa um án eftirlits í Grindavík. Spurður út í þessi ummæli hennar segir Úlfar:

„Ég get ekki talað um að þetta sé eitthvað vandamál. Ég tók upp umræðu um þetta mál á fundi viðbragðsaðila í gær. Þetta hefur verið þannig í framkvæmd að innan einhvers ákveðins tíma, 15-20 mínútur, þá er búið að stugga við þessu fólki og það farið út úr bænum. Við höfum verið með eitt og eitt tilfelli en við höfum brugðist við ef við höfum séð túrista á ferð þá hafa þeir fengið fyrirmæli um að yfirgefa svæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert