Einlægur vilji SA að Efling komi aftur að borðinu

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtök atvinnulífsins líta ekki svo á að Efling hafi slitið kjaraviðræðum þrátt fyrir að hafa ekki mætt til samningafundar breiðfylkingar stéttarfélaga og SA, sem hófst í Karphúsinu klukkan 10 í morgun.  

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is spurð hvort hún telji líklegt að Efling komi aftur að borðinu. 

„Það er einlægur vilji okkar að Efling komi aftur að til viðræðna enda lítum við svo á að viðræðum hafi ekki verið slitið.“ 

Spurð út í ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur um að SA sé að opna á umsaminn launalið til að bæta í hann hjá hluta þeirra sem við borðið sitja svarar Sigríður því til að fjölmiðlabann ríki um samningaviðræðurnar og því geti hún ekki tjáð sig um ummæli Sólveigar. 

Hún segir þó að allir sem sitja við samningaborðið séu mjög ástríðufullir þegar kemur að hagsmunum félagsmanna sinna. 

„Það er eðlilegt í svona löngum viðræðum að það sé verið að takast á, en um þessar viðærður ríkir trúnaður og við erum í fjölmiðlabanni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert