Frumvarp sem þingmenn úr fimm flokkum hafa lagt fram um tímamörk á sakamálarannsóknum tekur ekki nægilegt tillit til þess tíma sem þarf fyrir stórar sakamálarannsóknir.
Horfa þarf frekar til þess að efla löggæslu í landinu til að stytta málsmeðferðartíma.
Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Er meðal annars lagt til að rannsókn sakamála megi ekki standa lengur en eitt ár en að dómstólar geti þó heimilað framlengingu á rannsókn að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þó megi rannsóknin ekki standa lengur en fimm ár.
Þorbjörg kveðst hafa talað ötullega fyrir því að stytta málsmeðferðartíma í réttarkerfinu og bendir til dæmis á að rannsókn kynferðisafbrotamála hafi oft tekið of langan tíma. Sjálf hefur hún reynslu úr réttarkerfinu en hún starfaði sem saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara 2018-2020.
„Ég skil mjög vel að þetta er vandamál og að rannsóknir dragist um of á langinn. Þarna er samt ekki hægt að horfa fram hjá samhengi hlutanna, sem er í fyrsta lagi hvað hefur gerst með löggæsluna á Íslandi á liðnum árum,“ segir hún og bendir á að á höfuðborgarsvæðinu hafi orðið talsverð fækkun lögreglumanna.
Árið 2007 störfuðu 339 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu en árið 2023 voru lögreglumenn 297 talsins. Þá er rétt að taka fram að á þeim tíma hefur íbúum svæðisins fjölgað umtalsvert sem og ferðamönnum.
„Hitt er síðan mjög breytt umhverfi afbrota- og sakamálarannsókna. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta frumvarp rímar við tóninn og taktinn sem dómsmálaráðherra er að slá með sérstaka áherslu á skipulagða brotstarfsemi,“ segir Þorbjörg.
Hún segir að stórar rannsóknir, eins og til dæmis á skipulagðri brotastarfsemi, taki eðli málsins samkvæmt lengri tíma þar sem lögregluyfirvöld þurfi oft að vera í samskiptum við erlend stjórnvöld við rannsóknir mála.
„Ég er stuðningsmaður þess að öllu leyti að við rýnum í það hvernig við getum stytt málsmeðferðartímann, en það gerum við með því að efla löggæsluna og það gerum við með því að lögregla hafi heimildir og úrræði,“ segir hún og bætir við:
„Fyrsta svarið hjá Sjálfstæðisflokknum þar getur ekki verið að ætla stytta málsmeðferðatímann með því að setja sakamálin í ruslið eftir 12 mánuði.“
Henni finnst frumvarpið ekki sýna aðstæðum og veruleika lögreglunnar mikinn skilning, sérstaklega í ljósi breytts umhverfis afbrota hér á landi.
„Ég hef skilning og samúð með því að þingmaðurinn vilji skoða þetta en ég er ekki sammála leiðinni til þess. Og ég heyri það bara innan löggæslunnar að þetta vekur upp spurningar.“
Auk Hildar eru flutningsmenn frumvarpsins úr Viðreisn, Pírötum, Flokki fólksins, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.