Erfitt að koma í veg fyrir atvikið

Unnið er að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar við álverið í Straumsvík og …
Unnið er að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar við álverið í Straumsvík og segir Pétur að gera megi ráð fyrir því að þeirri framkvæmd ljúki í síðasta lagi árið 2026. Samsett mynd/mbl.is/sisi

Atvik á Reykjanesbraut í gær, þegar rútu var ekið á móti umferð, sýnir mikilvægi þess að aðskilja þurfi akstursleiðir. Vegagerðin vinnur að tvöföldun Reykjanesbrautar á þessum kafla og hefði lítið geta gert til að koma í veg fyrir þetta tiltekna atvik.

Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við erum náttúrulega í framkvæmdum með tvöföldun þarna, þannig það verk er bara í gangi,“ segir Pétur.

Ekki gripið til nýrra ráðstafana 

Spurður hvort að það sé hægt að setja vegrið á milli akstursleiða núna segir hann að ekki verði gripið til nýrra ráðstafana vegna atviksins, sem hann segir virðast hafa verið af ásettu ráði.

„Þarna er ekki það að einhver missi stjórn á bílnum eða í einhverju athugunarleysi fari óvart yfir á öfugan vegarhelming. Þarna er það greinilega gert, virðist vera, með ásetningi. Þannig það er mjög erfitt fyrir Vegagerðina að koma í veg fyrir það.“

Hann segir að ein mikilvægasta aðgerðin sem hægt sé að fara í til að tryggja öryggi vegfarenda á umferðarmiklum vegum sé að aðgreina akstursstefnurnar. Hvort sem það er með tvöföldun eins og verið er að gera á þessum kafla eða með því að hafa 2+1 vegi eins og til dæmis á Hellisheiði.

Rannsókn á málinu hefst á morgun

Unnið er að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar við álverið í Straumsvík og segir Pétur að gera megi ráð fyrir því að þeirri framkvæmd ljúki í síðasta lagi árið 2026, ef áætlanir standast.

„Við erum með tvöfölduninni að aðskilja akstursleiðir einmitt til þess að þetta gerist ekki. En þetta er þess eðlis að það er ekkert sem kemur í veg fyrir menn bara keyri yfir á hina akreinina.“

Atvikið hefur vakið mikla athygli og mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefja rannsókn á málinu á morgun. Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá var rútan í umsjón bifreiðaverkstæðisins Vélrás þegar atvikið átti sér stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka