Frumvarp ríkisstjórnarinnar um uppkaup á húsnæði hentar ekki öllum íbúum Grindavíkur. Þannig eru margir sem vilja halda eigninni sinni, en treysta því illa að viðhaldi á henni verði sinnt ef fólk ákveður að selja ríkinu eignina.
Þá er hópur leigjenda sem hefur engin önnur úrræði en þau að leita annað á leigumarkað.
„Þó frumvarpið nái að grípa mjög marga þá megum við ekki heldur gleyma því að til staðar jaðartilfelli. Það er hópur sem vill halda eigninni sinni og það er fólk sem var að leigja. Allt þetta fólk þarf líka lausnir," segir Sunna Jónína Sigurðardóttir, íbúi í Grindavík.
Sjálf býr Sunna í sumarhúsi í Grímsnesi. Hún hyggst ekki fara aftur til Grindavíkur eftir að bærinn opnar að nýju. Áður hafi hún verið á leigumarkaði og getur hún ekki hugsað sér að bjóða fjölskyldunni upp á þá óvissu sem jarðhræringatímabilið ber í skauti sér.
Sunna Jónína ræddi, ásamt Sólnýju Pálsdóttur og Dagbjarti Willardssyni, um upplifun síðustu mánaða eftir að eldhræringarnar hófust í nóvember í Dagmálum mbl.is.