Grindavíkurbæ voru afhentar tæplega 5,3 milljónir króna í gær í söfnun sem Hótel Keflavík hóf fyrir áramót.
Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótel Keflavík, afhenti Kjartani Friðriki Adolfssyni, aðalbókara Grindavíkur, 5.294.694 krónur og segir í tilkynningu að fjármunirnir muni renni óskertir til Grindavíkur.
Á söfnunin að nýtast sem stuðningur fyrir íbúa, félagasamtök og fleira.
„Þessi söfnun er mjög þakkarvert framtak og mun án efa koma sér vel. Síðast í dag fékk ég símtal frá Vestmannaeyjum til fá söfnunarreiknings númerið til leggja þessu góða verkefni lið,“ er haft eftir Kjartani.
„Þegar maður sjálfur lendir í svona hremmingum er gott að finna sterkan stuðning frá landsmönnum. Verkefnin eru mörg og ég sjálfur sé þessa fjármuni koma sér vel fyrir börnin okkar, íþrótta- og félagsstarf.“
Hótel Keflavík lagði fram fyrstu milljónina og hvatti önnur fyrirtæki og einstaklinga að taka þátt. Í tilkynningunni kemur fram að bæjarráð Grindavíkur mun á seinni stigum skipa hóp sem mun úthluta þeim fjármunum sem safnast.
„Við viljum sýna Grindvíkingum að við stöndum með þeim í þessum hremmingum og við ætlum að vera til staðar fyrir þau,” er haft eftir Steinþóri hótelstjóra.
Hann segir erfiða stöðu Grindvíkinga enn vera til staðar en ákveðið var að afhenda það sem safnast hafði svo Grindavíkurbær gæti ráðstafað fjármununum, þótt söfnunin haldi áfram.
„Söfnunin heldur samt áfram og þessi afhending er því bæði áminning um að við flest getum gert betur og margt smátt gerir eitt stórt,“ er haft eftir Steinþóri.
Söfnunin mun halda ótrauð áfram og ætlar Hótel Keflavík að gefa öllum fyrirtækjum sérstaka viðurkenningu sem styrkja um 500.000 krónur eða meira, að því er kemur fram í tilkynningunni.
„Ótti og hræðsla byggist á því sem enginn veit og óvissu um framtíðina. Styrkur felst í að standa saman og styðja hvort annað,“ er haft eftir Steinþóri að lokum.
Hægt er að styrkja söfnunina hér.