„Það er búið að vera tiltölulega rólegt á Reykjanesskaganum í dag. Það kom smá skjálftahrina við kvikuganginn rétt sunnan við Hagafell í nótt sem dó fljótt út.“
Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Sigríður segir að skjálftahrinan sem varð í nótt hafi komið þar sem gaus í janúar og einnig hafi verið virkni þar sem gosin komu upp í desember og núna í febrúar.
„Þetta kannski segir okkur að séu svæðin sem eru veikust. Landrisið heldur áfram og það hafa þannig sé ekki orðið neinar breytingar á því og enginn órói er mælanlegur eins og er. Staðan er óbreytt. Það er yfirvofandi gos á næstu dögum og það er það sem við erum undirbúin fyrir,“ segir Sigríður.
Margir smáskjálftar hafa mælst við Eiturhól á Mosfellsheiði í dag. Spurð hvað sé í gangi þar segir Sigríður:
„Það hafa komið skjálftar þar áður. Það er einhver niðurdæling á þessum slóðum en það er að mig minnir grunnar niðurdælingaholur svo það er erfitt að tengja þetta við þær. Þetta eru bara einhverjar hreyfingar eins og gengur og gerist.“