Lyktin loks farin og opnað á morgun

Pizzan við Fellsmúla opnar aftur á morgun.
Pizzan við Fellsmúla opnar aftur á morgun. mblis/Kristinn Magnússon

Pizzan opnar stað sinn í Fellsmúla á morgun en hann hefur verið lokaður frá stórbrunanum sem varð í Fellsmúla þann 15. þessa mánaðar.

„Ég get staðfest að við opnum staðinn aftur á morgun. Það eru talsverðar endurbætur búnar að eiga sér stað sem þurfti að ráðast í vegna vatns- og reykskemmda,“ segir Axel Birgisson, rekstarstjóri Pizzunnar, við mbl.is.

Lyktin var stóra vandamálið

Hann segir að öflugt teymi hafi verið að störfum frá því bruninn átti sér stað.

„Lyktin er loksins farin. Hún var stóra vandamálið. Það er ekki gaman að bjóða upp á veitingarekstur sem afhentir mat þegar það er lykt af bráðnum dekkjum,“ segir Axel en upptök eldsvoðans varð í dekkjalager N1 á efri hæð hússins við Fellsmúla.

Hann segir að það hafi orðið töluvert tjón á staðnum.

„Þetta var talsvert meira heldur en maður sá fyrst. Það var ekki fyrr en við vorum búin að taka allt dótið okkar út af staðnum fyrr en komu í ljós skemmdirnar. Það voru skemmdir á kælunum sem geyma hráefnið, það þurfti að skipta um varahluti í þeim, þétta veggi, saga neðan af gipsveggjum og fleira,“ segir Axel.

Opnunartilboð fyrstu þrjá dagana

Hann segir það hafa verið mikinn vilja að gera endurbæturnar sem bestar.

„Við erum að afhenda matvöru og þá þarf þetta að vera upp á tíu. Við sáum þetta frekar sem tækifæri heldur en eitthvað leiðinlegt. Það er því ánægjulegt að geta opnað nýjan og ferskan stað á morgun,“ segir Axel.

Hann segir að opnunartilboð verði fyrsta þrjá dagana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert