„Opnum ekkert á næstunni“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þröst­ur Ingvars­son, sölu­stjóri hjá Slipp­fé­lag­inu, seg­ir óvíst hvenær hægt verði að opna versl­un Slipp­fé­lags­ins við Fells­múla á nýj­an leik en tölu­vert tjón varð í húsa­kynn­um versl­un­ar­inn­ar eft­ir stór­bruna um miðjan þenn­an mánuð þegar eld­ur braust út í bif­reiðaþjón­ustu N1.

„Staðan hjá okk­ur er í raun­inni sú að við erum að taka út ákveðnar vör­ur sem mögu­lega er hægt að bjarga en það er al­veg ljóst að við erum ekk­ert að fara opna versl­un­ina á næst­unni,“ seg­ir Þröst­ur við mbl.is.

Hann seg­ir að það sé ekk­ert þak yfir versl­un­inni en á hæðinni fyr­ir ofan Slipp­fé­lagið sé starf­semi bif­reiðaþjón­ustu og dekkja­verk­stæði N1 þar sem brun­inn átti upp­tök sín.

Þröst­ur Ingvars­son, sölu­stjóri hjá Slipp­fé­lag­inu, og Sig­ur­björg Stef­áns­dótt­ir versl­un­ar­stjóri.
Þröst­ur Ingvars­son, sölu­stjóri hjá Slipp­fé­lag­inu, og Sig­ur­björg Stef­áns­dótt­ir versl­un­ar­stjóri. Mynd/​Guðmund­ur Hilm­ars­son

Tölu­vert mikið tjón

„Við urðum fyr­ir tölu­vert miklu tjóni á vör­um án þess að ég geti sagt ná­kvæm­lega til um það. Það er aðallega vegna lykt­ar og meðan það tekst ekki að loka hæðinni fyr­ir ofan og það lek­ur inn til okk­ar þá fer lykt­in ekk­ert. Ég næ ekk­ert að þrífa al­menni­lega á meðan ástandið er með þess­um hætti. Það er ekki vatns­helt á milli hæða,“ seg­ir Þröst­ur og bæt­ir því að það liggi hjá Festi, sem rek­ur N1, hvert fram­haldið verði.

Þröst­ur seg­ir að tek­ist hafi að bjarga ein­verj­um vör­um úr versl­un­inni og þá sér­stak­lega af lista­manna­vör­um sem eru í lokuðum túp­um en að sama skapi sé verið að meta stöðuna á vör­un­um.

Þröst­ur vill koma því á fram­færi að viðskipta­vin­ir Slipp­fé­lags­ins geti farið í farið í versl­an­ir Slipp­fé­lags­ins í Skútu­vogi og við Dals­hraun í Hafnar­f­irði.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert