Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfum Önnu Bryndísar Einarsdóttur sem stefndi ríkinu vegna ákvörðunar um að hafna sér um greiðslur í fæðingarorlofi vegna vinnu sem var unnin utan Íslands.
Forsaga málsins er sú að Anna Bryndís fluttist til Íslands í september árið 2019 eftir um fjögurra ára dvöl í Danmörku þar sem hún hafði starfað. Hún hóf störf á íslenskum vinnumarkaði í september 2019 og eignaðist barn í mars 2020.
Fæðingarorlofssjóður samþykkti eingöngu greiðslur í orlofi vegna vinnu á Íslandi og námu þær 184 þúsund krónum á mánuði miðað við 100% orlof.
Anna Bryndís kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála, en hún staðfesti niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs.
Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í mars í fyrra, en hann staðfesti niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála.
Anna Bryndís óskaði í kjölfarið eftir því að Hæstiréttur myndi taka málið beint upp og vísaði hún meðal annars til þess að úrslit málsins gætu haft verulega almenna þýðingu um beitingu réttarreglna og fordæmisgildi fyrir fjölda einstaklinga sem væru í sömu stöðu og hún. Hæstiréttur varð að beiðninni og fór málið því ekki í gegnum Landsrétt.
Þegar málið var tekið fyrir var rétturinn fullskipaður með sjö dómurum, sem er óalgengt. Almennt skipa fimm dómarar réttinn.