Samningafundi breiðfylkingarinnar, samflots nokkurra stærstu stéttarfélaga innan ASÍ – Eflingar, Samiðnar og Starfsgreinasambandsins, við Samtök atvinnulífsins lauk seinnipartinn í gær. Viðræður hefjast á ný klukkan 10 í dag í Karphúsi ríkissáttasemjara.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari greindi Morgunblaðinu frá því að samningaviðræður gengju ágætlega. Ekki var þó laust við þreytu í rómi sáttasemjarans er blaðamaður náði tali af honum en spurður hverjar horfur væru í viðræðunum kvaðst hann ekki geta sagt til um hvenær þeim myndi ljúka.
„Þetta er seinlegt og tafsamt ferli. Ég veit ennþá ekki hvenær þessu lýkur.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, greindi Morgunblaðinu frá því að ríkissáttasemjari hefði sett fjölmiðlabann á alla samningsaðila að svo stöddu.
Hvorki náðist í Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar né Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness en VR sleit sig frá breiðfylkingu stéttarfélaganna á föstudaginn. Ekki liggur fyrir hvort VR haldi samningaviðræðum áfram eitt síns liðs eða í slagtogi við önnur félög.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur heilt yfir verið góður gangur í viðræðunum og vonast er til að samningsaðilar nái saman á næstu dögum. Allar meginlínur séu klárar en unnið sé að því að slípa til ýmis atriði, svo sem viðbótarlaunaliði.
Viðmælendur blaðsins segja að fjölmiðlabannið sé til marks um að spennustigið sé hátt en það sé ekki endilega vísbending um að snurða hafi hlaupið á þráðinn. Þá herma heimildir Morgunblaðsins að þótt aðkoma ríkisvaldsins hafi ekki verið formlega kynnt hafi samningsaðilar fengið upplýsingar um hvað í henni felist.