Starfsemin fari fram í Urðarhvarfi

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kveður aðila sem tekið hafi að …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kveður aðila sem tekið hafi að sér að veita tiltekna þjónustu á grundvelli samnings ekki geta ákveðið einhliða að víkja frá ákvæðum samningsins með grundvallarbreytingu á framkvæmd hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sjúkratryggðum er enn heimilt að skrá sig á heilsugæslustöð og leita til heilsugæslustöðvar eftir þjónustu hvar sem þeim hentar best og gildir það jafnt um opinberar og einkareknar heilsugæslustöðvar.“

Þetta segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í skriflegu svari til mbl.is í kjölfar fréttar hér á vefnum um bréf Sjúkratrygginga Íslands til Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi sem varð til þess að horfið var frá því að tveir læknar með starfsstöð í Urðarhvarfi sinni starfi sínu að hluta á Læknastofum Akureyrar. Hóf annar þeirra störf 2. janúar en til stóð að hinn veitti þjónustu sína frá 1. mars.

Bendir ráðherra í svari sínu á að Sjúkratryggingar Íslands annist samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu á grundvelli laga um sjúkratryggingar.

„Samningurinn milli SÍ og Heilsugæslu Reykjavíkur var gerður um rekstur heilsugæslustöðvar að Urðarhvarfi 14 í Kópavogi og er í samningsákvæðum áréttað að starfsemin skuli fara fram þar. Gengið er út frá því að þar skuli veitt heildstæð heilsugæsluþjónusta á einum stað, og áhersla lögð á þverfaglega samvinnu fagstétta,“ segir þar enn fremur.

Tekur ráðherra fram að ákvörðun SÍ hafi ekki áhrif á fjölda starfandi heimilislækna á landinu.

Geti ekki vikið einhliða frá samningsákvæðum

Samningur SÍ og Heilsugæslu Reykjavíkur komi í kjölfar útboðs um rekstur heilsugæslu, þar sem skýrt hafi verið kveðið á um við gerð samninga SÍ að heilsugæslustöðvar yrðu starfræktar á höfuðborgarsvæðinu.

„Aðili sem tekið hefur að sér að veita tiltekna þjónustu á grundvelli samnings getur ekki ákveðið einhliða að víkja frá ákvæðum samningsins með grundvallarbreytingu á framkvæmd hans eins og í því tilviki sem hér um ræðir,“ segir ráðherra.

Hafi engin ákvörðun verið tekin um opnun einkarekinnar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Yrði slík ákvörðun tekin, færi valferli um rekstraraðila formlega fram í gegnum SÍ þar sem öllum þar til bærum aðilum yrði boðið að taka þátt, áréttar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert