Síðustu daga hefur Umhverfisstofnun borist ábendingar um sterka gaslykt í Reykjanesbæ.
Fram kemur í tilkynningu að fólk hafi jafnvel fundið fyrir einkennum eins og sviða í hálsi og höfuðverk.
„Þá daga sem ábendingar hafa borist hefur mælst lítil gasmengun (SO2) úr nýja hrauninu. Brennisteinsvetni (H2S) hefur hins vegar mælst í talsvert meira magni. H2S losnar frá virkjuninni í Svartsengi. Það gas hefur mjög sterka lykt. Gas sem losnar frá nýja hrauninu hefur ekki eins afgerandi lykt,” segir í tilkynningunni.
Fram kemur að gas frá hrauninu geti aftur á móti hvarfast yfir í brennisteinsagnir. Þær geti verið ertandi fyrir háls hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir slíku.
„Mengunin sem hefur verið að mælast síðustu daga er því sambland af mengun frá nýja hrauninu og frá útblæstri virkjunarinnar í Svartsengi. Mælanet SO2 gasmæla er þétt á Suðurnesjum. Umhverfisstofnun er að vinna að því að þétta net svifryksmæla sem skynja brennisteinsagnir,” segir jafnframt í tilkynningunni.