Athafnarmaðurinn Kristján Ólafur Sigríðarson var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 87,4 milljónir í sekt til ríkissjóðs vegna stórfelldra skattalagabrota sem hann var fundinn sekur um árin 2017 til 2019.
Kristján hefur meðal annars komið að stofnun mathallarinnar Borg29 og mathallarinnar á Akureyri, auk þess að reka veitingastaðinn Brand Vín&Grill og hafa stofnað Wok on á sínum tíma og verið aðaleigandi staðarins þangað til í fyrra.
Kristján var meirihlutaeigandi einkahlutafélagsins MK Capital, en í dómi héraðsdóms kemur fram að hann hafi í rekstri félagsins ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á 9,9 milljónir og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á 9,2 milljónir.
Þá hafi hann á árunum 2017 til 2019 ekki gefið upp tekjur sínar, m.a. af innborgunum einstaklinga, frá MK Capital og reiðufjárinnborgunum, samtals upp á 55,3 milljónir. Einnig er hann sakaður um að hafa ekki gefið upp leigutekjur upp á 4,6 milljónir.
Með þessu er Kristján sagður hafa komist hjá því að greiða 24,2 milljónir í tekjuskatt og um 500 þúsund í fjármagnstekjur.
Við rannsókn málsins sagðist Kristján ekki kannast við málið og að hann væri búinn að greiða sekt vegna skattamála sinna. Þá sagði hann annan mann hafa borið ábyrgð á rekstri félagsins.
Fyrir dómi breytti hann afstöðu sinni og sagðist hafa stýrt daglegum rekstri MK Capital og borið ábyrgð á fjármálum og rekstri þess, en hann var prókúruhafi, meirihlutaeigandi og stjórnarmaður þess. Sagðist hann hafa fengið annan mann til að taka að sér stjórnarmennsku þegar félagið stefndi í þrot.
Kristján gerði ekki athugasemdir við fjárhæðir í ákærunni og gekkst við að hafa skilað inn röngum framtölum. Hann hafnaði hins vegar refsiverðri háttsemi með vísan í fyrirmæli Ríkissaksóknara frá árinu 2021 um meðferð sakamála, þar sem fram kom að miða ætti við 50 milljóna skattabrot í sakamálum. Ef upphæðin næði því ekki ætti að klára málið fyrir skattayfirvöldum.
Vísaði Kristján til að vangreiddir skattar hans væru í dag aðeins 43,7 milljónir, en hann hefur greitt um 18 milljónir inn á skuldir sínar.
Dómari hafnaði þessu hins vegar og sagði heildarbrot hans nema tæplega 60 milljónum og að skattgreiðslan hafi átt að vera 24,6 milljónir. Brot Kristjáns hafi verið fullframinn þegar hann skilaði inn röngum skattskýrslum og hvað hann hafi aðhafst eftir að hann skilaði þeim inn, m.a. með endurgreiðslu breyti þar engu um. Innborgun á skuldina komi hins vegar til skoðunar við ákvörðun refsingar, en á móti er horft til þess að það að benda ranglega á að annar maður hafi borið ábyrgð á rekstrinum auki á saknæmi hans.
Var því níu mánaða skilorðsbundinn dómur talinn hæfileg refsing, auk þess sem houm er gert að greiða 87 milljónir í sekt.