Héraðssaksóknari telur að það sé mjög jákvætt að lögð sé til varanleg heimild til þess að sakborningar og vitni geti gefið skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi í gegnum fjarfundarbúnað. Þá sé það mjög jákvætt að lagt til að birta megi ákærur, vitnakvaðningar, dóma o.fl. í stafrænu pósthólfi.
Þetta kemur fram í umsögn embættisins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, sem varðar m.a. miðlun og form gagna, fjarþinghöld og birtingu ákæra.
Fram kemur í umsögninni að héraðssaksóknari fagni þeim breytingum sem lagðar séu til með frumvarpinu og hafi það að markmiði að einfalda, samræma og færa meðferð dómsmála til nútímans.
„Sérstaklega telur embættið mjög jákvætt að lögð sé til varanleg heimild til þess að sakborningar og vitni geti gefið skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi í gegnum fjarfundarbúnað. Það er mikilvægt að hægt sé að bregðast við með þeim hætti, t.d. þegar aðilar eru staddir fjarri þingstað, svo sem erlendis.
Þá fagnar héraðssaksóknari því að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að gæta þurfi vel að því að skýrslugjafi auðkenni sig með sannarlegum hætti og að gætt sé vel að því að skýrslugjöfin fari fram við viðunandi aðstæður og tryggt sé að skýrslugjafi sé ekki undir þrýstingi eða áhrifum frá öðrum við skýrslugjöfina. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja þessi atriði þegar sakborningur, brotaþoli eða mikilvæg vitni gefa skýrslu með þessum hætti þannig að réttaröryggis sé gætt,“ segir í umsögninni.
Þá telur héraðssaksóknari mikla réttarbót fólgna í þeirri breytingu sem fyrirhuguð sé á 66. gr. laga um meðferð sakamála, þ.e. að við skýrslu hjá lögreglu riti skýrslutaki undir með lögreglunúmeri sínu en ekki nafni eins og verið hefur.
„Er þetta mikilvægt í því skyni að vernda lögreglumenn og aðra starfsmenn lögreglu, einkalíf þeirra og öryggi.“
Þá segir embættið, að það sé mjög jákvætt að með frumvarpinu sé lagt til að birta megi ákærur, vitnakvaðningar, dóma o.fl. í stafrænu pósthólfi. Segir að núverandi fyrirkomulag þar sem meginreglan sé sú að birting ákæru og annarra sambærilegra gagna, fari fram með birtingu sem framkvæmd sé af lögreglumanni, starfsmanni fangelsismálastofnunar eða stefnuvotti, sé tímafrek og rími illa við nútímalega samskiptahætti.
„Þá getur slíkt verið ansi íþyngjandi fyrir t.d. ákært fólk því þeim er oftast birt á heimili eða vinnustað auk þess sem núgildandi lög heimila að slík gögn séu birt á lögheimili, fyrir þeim sem þar finnst fyrir.“