Klara Ósk Kristinsdóttir
Samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í dag að efna til kosninga um verkfall hjá ræstingafólki innan vébanda félagsins. Líklegt þykir að kosningar þess efnis muni hefjast um miðja næstu viku.
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, í samtali við mbl.is, en Verkalýðsfélag Akraness heyrir undir starfsgreinasambandið.
„Ég reikna fastlega með að ef ekki dregur til tíðinda í þessum kjaraviðræðum á næstu dögum, þá muni kosning hefjast um miðja næstu viku.“
Er þessi ákvörðun í takt við ákvörðun Eflingar sem ákvað á fundi í gær að boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinnar um vinnustöðvun hjá ræstingarfólki, en Vilhjálmur kveðst vera í góðu sambandi við Sólveigu Önnu um framgang mála í kjaraviðræðunum.
Spurður hvort hann viti hvernig hljóðið er í ræstingarfólki innan vébanda VLFA um verkfallsaðgerðir, segist hann ekki eiga von á öðru en að ræstingarfólk innan félagsins muni samþykkja verkfallsaðgerðir.
„Eins og Sólveig Anna var búin að upplýsa þá gerði Efling viðamikla könnun um afstöðu ræstingarfólks hjá Eflinu, þau eru með stóran hóp, og þar var 80% þeirra sem tóku afstöðu til í verkfallsátök til að knýja á um leiðréttingu sinna kjara. Ég hef enga aðra ástæðu til en að ætla að slíkt hið sama gildi um ræstingarfólk vítt og breytt um landið.“