Ekki er hægt að útiloka að aftur verði heitavatnslaust á Suðurnesjum ef gos hefst aftur á Reykjanesskaga.
Þetta kom fram í svari Kristins Harðarsonar, framkvæmdastjóra framleiðslu hjá HS Orku, á upplýsingafundi um afhendingaöryggi orku sem haldinn var í Stapa í Reykjanesbæ í kvöld.
Kristinn var spurður hvort enn væri möguleiki á því að íbúar á Suðurnesjum myndu aftur verða heitavatnslausir ef hraun rynni yfir Grindavíkurveginn að nýju. Hann svaraði spurningunni játandi en benti aftur á móti á að búið væri fergja langan kafla Njarðvíkuræðarinnar þar sem hraun er vera líklegast til að renna yfir.
„Þetta er aðferð sem var prófuð við Fagradalsfjall. Við erum að binda vonir um að þetta gæti virkað. Auðvitað eru þetta allt saman svolítið ókannaðir tímar. Og það er búið að gera þetta á svæði þar sem hraunflæðilíkön muni renna ef það gýs á svipuðum stað og síðast,“ sagði framkvæmdastjórinn.
„Við erum í það minnsta á mun betri stað og það er aldrei hægt að útiloka neitt og ef það gýs á einhverjum öðrum stað og fer á lögnina þar sem hún er óvarin, gæti komið rof á afhendingu. Þá erum við aftur tilbúin til viðbragðs, með viðgerðarefni til þess að lega, og munum leggja allt kapp á að það stopp verði sem allra styðst.“
Um 8,5 til 9 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi samkvæmt líkanreikningum, að sögn Veðurstofu Íslands. Í fyrri eldsumbrotum á Reykjanesskaganum hefur gos brotist út þegar kvikumagnið hefur náð 8 til 13 milljónum rúmmetra. Aðdragandi goss getur verið afar stuttur, að mati jarðfræðinga.