Ekki hrifin af því að viðræður fari í átakafarveg

Sigríður kveðst ekki hrifin af því að viðræður í kjaradeilu …
Sigríður kveðst ekki hrifin af því að viðræður í kjaradeilu SA og breiðfylkingar stéttafélaga fari í þann átakafarveg sem verkföll eru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kveðst ekki hrifin af því að kjaraviðræður SA og breiðfylkingar stéttarfélaga fari í þann átakafarveg sem verkföll eru. 

„Okkar mat er auðvitað fyrst og fremst að það skipti miklu máli, við þessar aðstæður sem eru uppi núna, að fækka óvissuatriðum frekar heldur en að fjölga þeim. Þess vegna erum við ekki hrifin af því að þessar viðræður fari í þennan átakafarveg.“

Þetta segir Sigríður í samtali við mbl.is spurð hvort hvernig ákvarðanir Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness, um að efna til kosninga um verkfall hjá ræstingafólki sínu, horfi við henni. 

„Komin mjög langt með gerð kjarasamnings“

„Forgangsverkefnið hjá okkur eru samningaviðræðurnar og það er búið að boða fund klukkan 9 í fyrramálið. Markmiðið okkar þar er auðvitað að halda áframa með þessar viðræður til þess að ganga frá þessum langtímakjarasamning sem við erum búin að vera að vinna að undanfarna mánuði,“ segir Sigríður. 

Þurfið þið hjá SA að endurskoða það hvernig þið komið að borðinu á morgun?

„Við höfum nálgast þetta verkefni af mikilli einlægni og við munum halda áfram að gera það.“ 

Þá áréttir Sigríður að samningsaðilar hafi verið með sameiginleg markmið í gegnum viðræðurnar. 

„Við erum komin mjög langt með gerð kjarasamnings þannig að við þurfum bara að setjast saman við samningaborðið og leysa úr þeim málum sem eftir standa.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert