Grunur leikur á um að kviknað hafi í rafmagns- eða geislahitara í húsnæði bifreiðarþjónustu N1 við Fellsmúla þar sem varð stórbruni um miðjan mánuð.
Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Guðmundur áréttir að um bráðabirgðaniðurstöðu sé að ræða en telur nokkuð öruggt að þetta verði endanleg niðurstaða tæknideildar lögreglunnar sem fer með rannsókn málsins.
Það var síðdegis fimmtudaginn 15. febrúar sem allir tiltækir slökkvibílar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir út að Fellsmúla vegna mikils elds í bifreiðastöð N1.
Nú er talið nokkuð ljóst að eldurinn hafi átt upptök sín í rafmagns- eða geislahitara, læst sér í stól og dreift svo úr sér.
Húsnæði N1 skemmdist illa í brunanum auk þess sem verslanir Curvy og Stout, Slippfélagsins og matsölustaður Pizzunar fóru illa.
Pizzan opnaði stað sinn aftur í dag eftir fjórtán daga lokun, en þar hafa talsverðar endurbætur átt sér stað vegna vatns- og reykskemmda.
Óvíst er hvenær hægt verður að opna verslun Slippfélagsins á ný þar sem ekkert þak er yfir versluninni vegna brunans.
Það sama á við um Stout, herrafatadeild Curvy og Stout, ekkert þak er yfir versluninni og mikið tjón hefur orðið vegna vatns- og rakaskemmda. Því stefna eigendur verslunarinnar ekki á að opna verslun Stout við Fellsmúla á ný, heldur færa sig um set og opna nýja og stærri verslun.
Þá fór betur en á horfðist hvað varðar hluta húsnæðis N1 sem bíður samþykkis heilbrigðiseftirlitsins til að hefja hluta starfseminnar á ný. Um er að ræða dekkjaverkstæði N1 sem slapp vel en það var viðgerðar- og smurþjónusta N1 sem fór illa í eldinum.